fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Frjálslynda lýðræðishefðin er í hættu

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 17. október 2021 15:30

John Stuart Mill

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þjóðfélagsskipan okkar og annarra vestrænna lýðræðisríkja byggir á frjálslyndi þar sem opin skoðanaskipti eiga sér stað, borin er virðing fyrir andstæðum sjónarmiðum, samhliða virðingu fyrir mannlegri reisn, trú á gildi frjáls markaðar og takmörkun ríkisvalds. Þessi grunngildi eiga hvarvetna undir högg að sækja — hvort tveggja frá öfgafólki til vinstri og hægri sem líta á hið klassíska frjálslyndi sem hugmyndafræði forréttindastétta samfélagsins. Þetta sást vel aðdraganda kosninga til þýska sambandsþingsins á dögunum. Þar mátti að ýmsu leyti merkja samhljóm með popúlísku flokkunum á sitthvorum jaðri stjórnmálanna, Die Linke og AfD, og báðir svo gott sem óstjórntækir.

Þessi mál voru til umfjöllunar í hefti The Economist sem kom 4. september sl. Þar var rakið hvernig klassísk frjálslyndisstefna hefði farið verulega hallloka í kjölfar uppgangs bolsévisma og fasisma sem um langa hríð voru fleinn í holdi hinnar gömlu evrópsku frjálslyndishefðar. Og nú líkt og fyrir hundrað árum eru ógnirnar úr sitthvorri áttinni. Margt öfgafólk til hægri vestanhafs afneitar jafnt hugmyndinni um réttarríkið sem og vísindum; hvort tveggja sé aðför einhvers sem kallað er „djúpríki“ að almennum borgurum. Ein birtingarmynd þessara öfga var árás múgsins á þinghúsið í Washington í janúar síðastliðnum. Þar opinberaðist hyldjúp gjá milli andstæðra sjónarmiða og enginn vilji til rökræðna á grundvelli hins klassíska frjálslyndis.

Og öfgarnar á vinstrivængnum vestanhafs birtast líka í andstöðu við grunngildi hins frjálslynda þjóðfélagsins. Dæmi um þetta eru sjálfsmyndarstjórnmálin og fórnarlambavæðingin þar sem menn keppast við að móðgast fyrir hönd annarra og telja rétt að bannfæra fólk sem viðhefur orðanotkun eða hegðun sem er ekki í samræmi við þá línu sem öfgafólk á vinstrivængnum aðhyllist hverju sinni.

Útskúfunarmenningin

Því miður höfum við hér í vestanveðri Evrópu einstakt lag á að tileinka okkur margt það versta í bandarískri menningu — á sama tíma og amerísk hámenning ratar miklu síður hingað austur eftir. Þetta birtist til dæmis á einum kosningafundi sem ég frétti af í aðdraganda alþingiskosninganna þar sem fundarstjóri meinaði fulltrúa flokks að taka til máls á fundi þar sem hugmyndir gestsins í pallborðinu misbyðu fundarstjóranum svo. Þarna er umburðarlyndið ekkert en refsiharkan algjör.

Útilokunarmenningin er sumsé komin til Íslands. Og eins og sést af þessu dæmi byggir hún á hugmyndarfræðilegri einstefnu þar sem eiginlegar rökræður eiga að ekki fara fram, andstæðingur fær ekki að taka til máls og er jafnvel bannfærður. Í raun er þetta afturhvarf til þeirra viðhorfa sem voru ríkjandi í Evrópu áður en klassísk frjálslyndisstefna festi rætur með upplýsingunni á 18. öld og ég hygg að fáa langi raunverulega aftur til þeirra tíma.

Hið klassíska frjálslyndi felur það nefnilega í sér að skoðanir sem miklum meirihluta landsmanna kunna að þykja fráleitar eða ógeðfelldar eiga líka rétt á sér — því þegar sönnu og ósönnu lýstur saman verður skynjunin skýrari og við blasir fjörmeiri mynd af sannleikanum eins og John Stuart Mill benti á um miðja 19. öld. Sú skoðun sem ekki fékk að njóta sín og þagað var um kann að hafa reynst rétt og þar með misstu borgararnir færi á að snúa frá villu síns vegar. Ef skoðunin var aftur á móti röng þá misstu menn næstum jafnmikils. Hreinskiptar umræður um grundvallarrök eru forsenda sáttar og þar með friðar í samfélaginu.

Vestræna frjálslynda lýðræðishefðin býður ekki bara að menn virði skoðanir samborgara sinna heldur að þeir séu tilbúnir að rökræða — og efast — um grundvallarrrök sinnar eigin hugmyndafræði. Í áðurnefndir umfjöllun Economist var því velt upp hvort fall Sovétríkjanna og þar með hugmyndakerfis kommúnismans hefði leitt af sér hugmyndafræðilega stöðnun hins klassíska frjálslyndis á Vesturlöndum og menn hafi ef til vill misst sjónar á ýmsum undirstöðuþáttum í samfélagsgerð vestrænna lýðræðisríkja. Sú skýring hljómar líkleg.

Rétthugsun er andleg kúgun

Mér þóttu sannast hin fornu orð að glöggt er gests augað þegar nígeríski rithöfundurinn, Chimamanda Ngozi Adichie, kom hingað í september sl. Adichie er einn kunnasti rithöfundur heims en hún hélt erindi á bókmenntahátíðinni. Egill Helgason, þáttastjórnandi á Ríkisútvarpinu, átti við hana viðtal þar sem svokallaða útilokunarmenningu bar á góma en Adichie hefur áhyggjur af umræðu á samfélagsmiðlum þar sem ungt fólk er einkum að tjá sig. Hún segir það gjarnan skorta samkennd og vera uppfullt af skinhelgi. Grípum niður í viðtalið, í þýðingu Ríkisútvarpsins:

„Útilokunarmenningin, hugtakið sjálft hefur fengið margvíslega merkingu en þegar ég skrifaði um það sagði ég hvað mér bjó í brjósti, að það fór hraðbyri um hin frjálslyndu Vesturlönd, sem herðast í ósveigjanleika gagnvart fjölþættri sýn á hvað eina.“

Adichie gagnrýndi líka þvingaðan rétttrúnað þar sem aðeins sé viðurkennd ein aðferð við að ræða um málin og sé það ekki gert séu menn víttir með siðaprédikun. Viðkomandi er ekki eingöngu ásakaður um ranga orðanotkun heldur um að vera „siðferðilega vond manneskja“.

Hún rakti síðan hversu alvarlegt þetta væri fyrir listirnar — menn skelfdust svo við að segja eitthvað rangt að þeir segðu bara ekki neitt. En rétthugsun eða rétttrúnaður af þessu tagi bælir alla æðri hugsun og er ekkert annað en andleg kúgun. Eða eins og Mill orðaði það:

„Hugsanafrelsi og málfrelsi eru ófrávíkjanleg skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins og önnur velferð byggist á þeirri andlegu.“

Hugmyndafræðileg endurnýjun er nauðsynleg

Athugum að klassíska frjálslyndishefðin lá til grundvallar stefnu jafnt borgaralegra flokka sem og sósíaldemókratískra. Og til að bregðast við þeirri hugmyndafræðilegu upplausn sem nú ríkir þurfa flokkar að horfa meira inn á við. Hugmyndafræðileg endurnýjun þarf nauðsynlega að eiga sér stað.

Hér í þessum pistlum hefur fjáraustur úr ríkissjóði til stjórnmálaflokka þráfaldlega verið gagnrýndur — ekki hvað síst vegna þess að ríkisvæðing stjórnmálanna hefur grafið undan eiginlegu flokksstarfi og þátttöku almennings í hugmyndafræðilegri stefnumótun þar með. Við bætist að þessum fjármunum skattborgara er skelfilega illa varið eins og sást í aðdraganda síðustu alþingiskosninga þar sem baráttan var háð með auglýsingum og eintómum (og jafnvel innantómum) vígorðum en ekki rökræðum.

Í Þýskalandi starfa rannsóknarstofnanir til hliðar við stjórnmálaflokkanna þar sem hugmyndafræðin er greind, skýrslur unnar um margvíslega þætti stjórnmálanna, ráðstefnur haldnar og þar fram eftir götunum — allt til að dýpka stjórnmálin. Þessar stofnanir eru reknar fyrir skattfé. Ef til vill er þetta eitthvað sem við ættum að horfa til; að skilyrða stóran hluta ríkisstyrksins við starfrækslu fræðilegra hugveitna í stað þess að fjármunum skattborgara sé sólundað í misgáfulegar auglýsingar.

En hvað sem því líður er brýnt að hófsamir menn horfi meira inn á við og gaumgæfi grundvallarrök sinnar eigin hugmyndafræði og þeirrar þjóðfélagsgerðar sem við höfum byggt upp á Vesturlöndum á arfleifð frönsku og amerísku byltinganna. Og að við leitum leiða til að varðveita grunngildi hins frjálslynda og umburðarlynda vestræna samfélags.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland

Sigmundur Ernir skrifar: Sveifluríkið Ísland
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás

Björn Jón skrifar: Sögubrot í miðri atburðarás
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar

Sigmundur Ernir skrifar: Fóstbræðrasaga síðari tíma upplausnar
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo

Svarthöfði skrifar: Eins og farsi eftir Dario Fo
EyjanFastir pennar
11.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd): Sameinumst – hjálpum þeim
EyjanFastir pennar
04.10.2024

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!

Steinunn Ólína skrifar (og talar í mynd!): Nei, nú hættum við að láta plata okkur!
EyjanFastir pennar
03.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Skuggasundið