fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Eyjan

Segir stöðuna í efnahagsmálum vera kolsvarta

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 15. október 2021 17:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ólafur Arnarson hagfræðingur dregur upp dökka mynd af horfum í efnahagsmálum þjóðarinnar vegna mjög versnandi skuldstöðu ríkissjóðs. „Nýrrar ríkisstjórnar bíður hrikalegur efnahagsvandi,“ er yfirskrift greinar sem Ólafur birti í Fréttablaðinu í dag.

Ólafur rifjar upp loforðaflaum um aukin útgjöld sem hafi verið stefið í kosningabaráttunni en þar hafi enginn minnst á alvarlega skuldastöðu ríkissjóðs. Segir Ólafur að ríkisbáknið hafi þanist út og ríkissjóður verið rekinn með vaxandi halla:

„Fyrir kosningarnar í september streymdu fram loforð um útgjöld hér og þar, verkalýðshreyfingin hélt úti auglýsingum þar sem því var haldið fram fullum fetum að nóg væri til af peningum fyrir allt og alla. Stjórnmálaflokkarnir lofuðu ýmist miklum útgjöldum eða skattalækkunum, nema hvort tveggja væri. Enginn minntist á þá alvarlegu staðreynd að skuldastaða ríkissjóðs er skelfileg. Þar kemur til mikill Covid-kostnaður, en ekki má gleyma því að fyrir Covid var rekstur ríkisins ósjálfbær. Ríkisbáknið hefur þanist taumlaust út og ríkissjóður er rekinn með vaxandi halla. Covid hefur svo aukið á þann vanda. Vextir eru farnir að hækka að nýju þannig að vaxtamunurinn á milli Íslands og umheimsins eykst nú með hverjum vaxtaákvörðunardegi Seðlabankans og gengi krónunnar er orðið of hátt, sem rýrir afkomu útflutningsatvinnugreina.“

Ólafur segir að stólaleikur virðist vera meginstefið í yfirstandandi stjórnarmyndunarviðræðum en enginn minnist á kjarna málsins, hrikalega skuldastöðu ríkissjóð:

„Samanlagður halli ríkissjóðs 2020 og 2021 verður yfir 500 milljarðar, sem er helmingur af fjárlögum ríkissjóðs í ár, og þá er verið að horfa til gjaldahliðarinnar. Ef horft er á tekjuhliðina nemur halli þessara tveggja ára nær 2/3 tekjuöflunar ríkisins í ár. Þetta hlutfall er skelfilegt. Ráðamenn reyna að kenna veirufjandanum um stöðuna en rekstur ríkissjóðs var hins vegar orðinn ósjálfbær áður en Covid-19 dundi yfir.“

Loðnan ofmetin

Afar góðar fréttir bárust fyrir skömmu þess efnis að loðnukvóti yrði stóraukinn, eða upp í 900 þúsund tonn. Ólafur segir áhrifin af loðnuvertíðinni vera ofmetin, fyrir svo utan það að þessi innspýting mun styrkja krónuna og geta leitt til vaxtahækkana:

„Greiningardeildir meta það svo að þetta geti aukið þjóðartekjur um 100 milljarða á næsta ári og bætt 0,8 prósentum við hagvöxt. Gott og vel, hér kemur innspýting en hún verður hvergi nærri jafn mikil og greiningardeildir búast við. Góð vertíð eftir áramót hjálpar vissulega í nokkrar vikur. Það skot mun hins vegar valda styrkingu krónunnar sem dregur úr ávinningnum. Innspýtingin setur aukinn þrýsting á vaxtahækkunarferli Seðlabankans, sem aftur veldur hærra gengi og þenslu.

Mikið framboð loðnuafurða mun lækka verð þeirra. Þar er að verki lögmálið um framboð og eftirspurn. Innspýtingin mun síðan ekki koma inn í hagkerfið sjálft nema að takmörkuðu leyti. Laun og ýmis kostnaður tengdur vinnslu á loðnunni rennur inn í hagkerfið en söluverðmætið erlendis kemur ekki nema að litlu leyti inn í hagkerfið.“

Gæluverkefnin verði að bíða

Ólafur segir að aðstæður séu þannig að óraunhæft sé að vænta stóraukinna framlaga til heilbrigðismála þó að flestir stjórnmálaflokkar hafi lofað slíku fyrir kosningar. Ef framlög til heilbrigðiskerfisins verði aukin þá verði að fresta gæluverkefnum á borð við hálendisþjóðgarð:

„Verði fjármagn aukið til heilbrigðismála þarf greinilega að taka það einhvers staðar frá. Gæluverkefni á borð við hálendisþjóðgarð, sem nær yfir nær allt hálendi Íslands, verða vegin á móti þörfinni fyrir fjármagn í heilbrigðiskerfið. Ekkert svigrúm er fyrir gæluverkefni af slíku tagi ætli menn að taka af ábyrgð á stöðu ríkissjóðs.“

Verði að horfast í augu við alvarlegar staðreyndir

Til að bæta gráu ofan á svart séu kjarasamnningar síðan lausir haustið 2022 en atvinnulífið ráði mjög illa við þær launahækkanir sem orðið hafi að undanförnu. Það valdi síðan aukinni verðbólgu að mörg fyrirtæki neyðist til að velta kostnaði af launahækkunum út í verðlagið. „Ræður atvinnulífið við nýja bylgju launahækkana í vaxtahækkunarferli með gjaldmiðil sem skoppar eins og korktappi í stórsjó?“ spyr Ólafur.

Hann segir samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs vera slæma og óstöðugur gjaldmiðill hamli henni mjög. Stjórnmálamenn verði að horfast í augu við alvarlega stöðu efnahagsmála:

„Horfist stjórnmálamenn ekki í augu við þessar alvarlegu staðreyndir verða afleiðingarnar alvarlegar. Kjósi þeir fremur að stunda áfram samkvæmisleiki um völd og stólaskipan en að einbeita sér að kjarna málsins er einsýnt að næsta ríkisstjórn lendir á hvolfi úti í skurði. Þá verða engir sigurvegarar, nema kannski helst þeir sem tapa stólaleiknum sem nú er í gangi.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Hvern vilt þú sjá sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins?

Hvern vilt þú sjá sem næsta formann Sjálfstæðisflokksins?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg

Orðið á götunni: Nú mæra þeir Bjarna sem settu honum stólinn fyrir dyrnar – nýrri valdablokk vex fiskur um hrygg
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Björn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra

Jón Björn ráðinn framkvæmdastjóri hjá Íþróttasambandi fatlaðra
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?

Orðið á götunni: Reiðin er vondur ráðgjafi – Hver ætlar að segja fúlu körlunum sem töpuðu kosningunum það?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Grínisti aðstoðar dómsmálaráðherra

Grínisti aðstoðar dómsmálaráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ármann segir að frestun landsfundar fram á haust væri vanvirðing gagnvart flokksmönnum

Ármann segir að frestun landsfundar fram á haust væri vanvirðing gagnvart flokksmönnum