fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Pólskur dómur getur reynst ESB og Póllandi dýrkeyptur

Kristján Kristjánsson
Mánudaginn 11. október 2021 06:59

Þúsundir mótmæltu dómnum í Póllandi í gær og kröfðust áframhaldandi ESB-aðildar. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á fimmtudaginn kvað stjórnlagadómstóllinn í Póllandi upp dóm sem getur reynst bæði ESB og Póllandi dýrkeyptur. Samkvæmt dómnum þá eru lög ESB á ýmsum sviðum ekki pólskum lögum æðri.

Það var pólska ríkisstjórnin sem fór af stað með málið í mars en það er stærsta sprengjan sem hefur fallið í stigvaxandi deildum Póllands og ESB um stöðu mála í Póllandi. Sérfræðingar telja að dómurinn geti kostað Pólverja milljarða Evra sem þeir verða af frá ESB og það hriktir í grunnstoðum ESB vegna hans.

Niðurstaða dómstólsins gengur þvert á grundvallarreglur ESB um að lög ESB séu landslögum æðri. Ef aðildarríkin 27 ýta lögum ESB til hliðar fyrir eigin lög má líkja því við kappleik í hópíþrótt þar sem hver og einn leikmaður setur sínar eigin reglur. Morgan Johanssonm, dómsmálaráðherra Svíþjóðar, skýrði þetta svona fyrir helgi: „Ef þú ert félagi í félagi verður þú að fara eftir samþykktum þess. Lög ESB gilda í öllum ESB-ríkjum.“

Ungverjar í lykilstöðu

Í kjölfar dómsins vaknar spurningin um hvort Pólverjar séu þar með á leið út úr ESB? Margir hafa krafist þess að þeir yfirgefi ESB eftir dóminn eða að dómurinn verði tekinn upp og dæmt á nýjan leik í málinu. Ef spurningunni er svarað á rökréttan hátt þá þýðir dómurinn að Pólland verður að yfirgefa ESB. Ef aðildarríki vill ekki fara eftir leikreglum sambandsins getur það ekki lengur verið með. En það fer nú varla svo að Pólland yfirgefi ESB, að minnsta kosti ekki strax. Meðal ástæðna þess er að það er ekki hægt að reka ríki úr ESB, það verður sjálft að ákveða að yfirgefa sambandið, eins og Bretar gerðu. Skoðanakannanir sýna mikinn stuðning við ESB-aðild í Póllandi og því er vafasamt að ríkisstjórnarflokkurinn Lög og regla (PiS) muni reyna að láta Pólland yfirgefa ESB, svokallað Polexit. Hin 26 aðildarríkin geta svipt Pólland atkvæðarétti innan þess en þau verða að vera sammála um þá ákvörðun og á meðan Viktor Orban fer með völdin í Ungverjalandi þurfa Pólverjar ekki að óttast þá niðurstöðu. Orban hefur fagnað dómi stjórnlagadómstólsins og heitið því að koma í veg fyrir að Pólverjar verði sviptir atkvæðisrétti.

Upphaf málsins

Allt frá 2017 hefur pólska ríkisstjórnin gert breytingar á dómskerfi landsins í þá átt að það brýtur gegn grundvallarreglum ESB um réttarríki. Til dæmis er skipun dómara orðin pólitískari en áður og sérstakt ráð getur refsað dómurum fyrir dómsniðurstöður þeirra. Erlendir sérfræðingar telja auk þess að stjórnlagadómstóll landsins sé víðs fjarri því að vera óháður.

PiS hefur  lengi haft mikil ítök í landinu á sviði löggjafarvaldsins og framkvæmdavaldsins. Tilraunir flokksins til að komast til áhrifa í dómskerfinu er mikil áskorun fyrir ESB hvað varðar eina af grunnstoðum sambandsins. Þetta brýtur gegn grundvallarréttindum Pólverja og ESB-borgara. Samkvæmt sáttmála ESB eiga allir ESB-borgarar og fyrirtæki rétt á vernd réttarríkisins þegar starfað er í Póllandi. Ekki má senda fjárstyrki frá ESB til ríkja sem ekki geta sýnt fram á að þeir séu misnotaðir. Til að hægt sé að ganga úr skugga um það þurfa sjálfstæðir og hlutlausir dómstólar að vera til staðar. Þetta er ástæðan fyrir að Framkvæmdastjórn ESB, með stuðningi flestra aðildarríkjanna, hefur reynt að semja við Pólverja, stefnt þeim fyrir dóm og hótað að greiða þeim ekki styrki. En þetta hefur ekki virkað.

Nýuppkveðni dómurinn er hápunkturinn á þessum deilum til þessa en ekki er að sjá að þeim sé að ljúka.

Fjárstuðningurinn skiptir miklu máli

Fjárstuðningur ESB er Póllandi mjög mikilvægur en hann nemur um 3,5% af vergri þjóðarframleiðslu. Landið hefur til dæmis fengið háar greiðslur til landbúnaðarins og í endurreisnarstarf eftir heimsfaraldur kórónuveirunnar.

Á síðasta ári var tekið upp kerfi innan ESB sem heimilar sambandinu að draga úr fjárstuðningi ef réttarríkið virkar ekki sem skyldi í aðildarríki. Óhætt er að segja að Evrópuþingið kalli kröftuglega eftir að þetta ákvæði verði nú virkjað gagnvart Póllandi.

Pólverjar hafa farið fram á 36 milljarða Evra frá ESB en Framkvæmdastjórnin hefur frestað að taka ákvörðun um þessa beiðni til að þrýsta á Pólverja að falla frá breytingum á dómskerfinu. Dómurinn frá í síðustu viku mun gera ESB enn erfiðara fyrir við að greiða þessa peninga til Póllands.

Dómur stjórnlagadómstólsins tekur ekki gildi fyrr en hann hefur verið birtur formlega. Hugsanlega munu Pólverjar biðja um peningana gegn því að þeir birti dóminn ekki. En til langs tíma litið mun það vera á valdi Pólverja að ákveða hvort landið mun fara eftir lögum ESB eða neita því og vísa þar í dóminn. Ef þeir neita getur dómstóll ESB sektað þá og ESB getur látið þá finna fyrir því fjárhagslega eins og áður var greint frá.

Niðurstaða stjórnlagadómstólsins getur því reynst Pólverjum dýr.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“