Lenyu Rún Taha Karim, varaþingmanni Pírata, er misboðið vegna skoðunar Jóhanns Páls Jóhannssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem kom fram í frétt Morgunblaðsins um kjörgagnaklúðrið í Norðvesturkjördæmi. Þar kom fram að Jóhann Páll teldi aðeins tvo valmöguleika í stöðunni, annarsvegar að það yrði uppkosning í Norðvesturkjördæmi eða lokatalningin yrði látið gilda.
Tvímenningarnir eru í ólíkri stöðu. Lenya Rún átti sæti á Alþingi víst samkvæmt niðurstöðum fyrri kosningarinnar en datt út í jöfnunarmannahringekjunni sem fór af stað þegar endurtalning var yfirstaðin. Jóhann Páll var hins vegar utan þings í fyrri kosningunni en datt inn á þing eftir endurtalninguna. Lenya Rún er í hópi þeirra sem hefur lagt fram kæru vegna endurtalningarinnar umtöluðu. Fer hún fram á það að ef ekki verði gerð uppkosning eða endurkosning þá muni fyrri talningin gilda.
Í viðtali við Morgunblaðið gefur Jóhann Páll lítið fyrir það að fyrri talningin geti gilt. „Mér sýnist, ef maður skoðar bæði lögin um kosningar til Alþingis og horfir raunsætt á pólitísku stöðuna, að valmöguleikarnir séu helst tveir. Annaðhvort verði farið í uppkosningu í Norðvesturkjördæmi – það er það sem lögin gera ráð fyrir ef misbrestirnir eru svo miklir að Alþingi telji að það eigi að ógilda kosninguna – eða þá að lokatalningin, sem yfirstjórnin í Norðvestur skilaði af sér, gildi. Verkefni kjörbréfanefndar samkvæmt þingskapalögum er að rannsaka þau kjörbréf sem gefin hafa verið út og svo tekur Alþingi í heild afstöðu til þess hvort þingmenn séu löglega kosnir, samanber 46. grein stjórnarskrár.“
Jóhann Páll sér því ekki flöt á að fyrri talning í Norðvesturkjördæmi verði látin gilda.
„Ég hef ekki séð skynsamleg lagarök fyrir því að það verði tekið fram fyrir hendur yfirkjörstjórnar og tölur sem voru tilkynntar fyrr í talningarferlinu í Norðvesturkjördæmi látnar gilda, ég sé ekki að það geti orðið niðurstaðan.“
Ljóst er að Lenya Rún er afar ósátt við þessa skoðun Jóhanns Páls og telur hann ekki byrja þingferil sinn vel. „Þingmaður sem komst inn á seinni tölum í NV-kjördæmi sér bara tvennt í stöðunni: uppkosning eða seinni tölur. Seinni tölur byggja augljóslega á spilltum kjörgögnum – er það svona sem Jóhann Páll ætlar að byrja baráttu gegn spillingu og óheiðarleika á þingi?“
Þingmaður sem komst inn á seinni tölum í NV-kjördæmi sér bara tvennt í stöðunni: uppkosning eða seinni tölur. Seinni tölur byggja augljóslega á spilltum kjörgögnum – er það svona sem @JPJohannsson ætlar að byrja baráttu gegn spillingu og óheiðarleika á þingi? pic.twitter.com/BTmyKECeOO
— Lenya Rún (@Lenyarun) October 11, 2021