Óhætt er að fullyrða að mikill reiði sé meðal stuðningsmanna Miðflokksins yfir þeirri ákvörðun nýkjörna þingmannsins Birgis Þórarinssonar að yfirgefa flokkinn og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Auk Birgis mun varaþingmaður hans, Erna Bjarnadóttir ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn. Í aðsendri grein í Morgunblaðinu gaf Birgir meðal annars þá skýringu að vistaskiptin megi rekja allt til uppákomunnar á Klaustri um árið sem hann hafi fordæmt opinberlega. Sú gagnrýni hans hafi eki verið vinsæl meðal annarra flokksmanna. Hann hafi vonað að um heilt hefði gróið en annað hafi komið í ljós í aðdraganda kosninga. Ýmislegt hafi verið reynt til þess að koma í veg fyrir að hann yrði oddviti flokksins. Það hafi þó ekki tekist í ljósi þessarar reynslu hafi hann ákveðið eftir kosningar að hann gæti ekki átt samleið með Miðflokknum.
Ákvörðun Birgis þýðir að þingflokkur Miðflokksins telur aðeins tvo þingmenn, þá Sigmund Davíð Gunnlaugssson, fyrrum forsætisráðherra, og Bergþór Ólason, sem datt inn sem jöfnunarmaður í umdeildri endurtalningu í Norðvesturkjördæmi.
Þeir Miðflokksmenn sem Eyjan hefur rætt við eru afar ósáttir við þessar skýringar. Hafi Birgir ekki getað fyrirgefið Klaustursmálið hafi hann ekki átt að bjóða sig fram, nýta sér vinnu og velvild sjálfboðaliða og stuðningsfólks Miðflokksins til þess að ná kjöri. Þannig hafi sjálfboðaliðar opnað og rekið fimm kosningaskrifstofur í kjördæminu og Birgir glaður nýtt sér vinnu þeirra til að tryggja sér þingsæti. Í ofanálag hafi oddvitinn farið mikinn í ósamþykktum auglýsingakaupum og nú séu farnir að berast reikningar til Miðflokksins vegna þessara auglýsingakaupa – auglýsinga sem skiluðu viðbótar Sjálfstæðismanni inn á þig. Ljóst er að flestir telja að launráð Birgis hafi verið ákveðin löngu fyrir kosningar.
Sjálfstæðismenn eru þó greinilega ekki á sama máli. Margir fagna liðhlaupi Birgis, þar á meðal kollegar hans í Suðurkjördæmim, þingmennirnir Vilhjálmur Árnason og Ásmundur Friðriksson.
Baldur Bergþórsson, varaborgarfulltrúi Miðflokksins, er ósáttur við þessa hlýju kveðju Ásmundar. „Nú er bleik brugðið kæri vinur. Finnst þér sómi að framkomu Birgis og Ernu gagnvart flokkssystkinum sínum sem þau nýttu til að koma sér inn á þing til þess eins að senda þeim þessar köldu kveðjur strax að loknum kosningum og það áður en þing er sett? Slík framkoma er engum til sóma og enn síður ástæða til fagnaðarláta. Kvislingar er það fyrsta sem kom upp í minn huga við þessar fréttir,“ skrifar Baldur.
Margir taka undir orð Baldurs og skilja ekkert í gleði Ásmundar yfir tíðindunum. Páll Valur Björnsson, fyrrum þingmaður Bjartrar framtíðar, er afdráttarlaus. „Þetta hlýtur að vera einhverskonar Íslandsmet í svikum við kjósendur,“ skrifar Páll Valur.
Karl Garðarsson, fyrrum þingmaður Framsóknarflokksins, er á svipuðum slóðum. „Það er enginn skortur á pólitískum óheiðarleika en sú ákvörðun Birgis Þórarinssonar að yfirgefa Miðflokkinn og ganga til liðs við Sjálfstæðisflokkinn, hálfum mánuði eftir kosningar, hlýtur að jaðra við Íslandsmet. Það er svo sem ekkert nýtt að þingmenn skipti um flokk. Birgir var hins vegar greinilega búinn að ákveða þetta fyrir kosningar, nýtir sér Miðflokkinn og kjósendur hans til að komast inn á þing, en yfirgefur skútuna strax og markmiðinu er náð. Subbulegra verður það vart. Sorglegt að sjá vini mína í Sjálfstæðisflokknum fagna þessu á samfélagsmiðlum. Við eigum aldrei að gleðjast yfir óheiðarleika.“