Morgunblaðið segir að hálendisþjóðgarður og orkunýting séu mál sem tefji gang viðræðna. Hefur blaðið eftir þingmönnum stjórnarflokkanna að formennirnir séu alfarið með viðræðurnar á sinni könnu enn sem komið er en búist sé við að fleiri verði kallaðir til í næstu viku þegar og ef rammi endurnýjaðs stjórnarsamstarfs liggi fyrir.
Hefur blaðið eftir viðmælendum sínum úr hópi þingmanna flokkanna að formennirnir hafi nægan tíma og vilji gefa sér tíma til að leysa úr ágreiningsefnum þeirra. Formennirnir vilji leysa erfiðu málin frá síðasta kjörtímabili áður en byrjað verður að semja nýjan stjórnarsáttmála en viðbúið er að sú vinna taki talsverðan tíma. Vilji standi til að búa vel um alla hnúta svo minni líkur verði á ágreiningi síðar.
Erfiðu málin hafa hins vegar reynst tafsamari en reiknað var með. Eru hálendisþjóðgarður og orkunýting sögð vera helstu ágreiningsmálin.