Leigusamningur vegna nýs varðveisluhúsnæðis fyrir listaverk í eigu Listasafns Reykjavíkur var samþykktur á síðasta fundi borgarráðs.
Um er að ræða leigu á 730 fermetra sal að Víkurhvarfi 1 í Kópavogi. Mánaðarleigan er 1.452.700 krónur og fylgja rekkar húsnæðinu. Reykjavíkurborg greiðir því tæpar 17,5 milljónir á ári í leigu vegna salarins. Leigusamningurinn er óuppsegjanlegur fyrstu 10 árin en frá nóvember 2031 er heimilt að segja honum upp með hálfs árs fyrirvara.
Listasafn Reykjavíkur samanstendur af þremur útibúum í borginni; Ásmundarsafni við Sigtún, Hafnarhúsi við Tryggvagötu og Kjarvalsstöðum við Flókagötu. Safnið varðveitir listaverkaeign Reykjavíkurborgar.
Milljón meira á mánuði
Listasafn Reykjavíkur leitaði til fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar og óskaði eftir aðswtoð við að finna nýtt og stærra varðveisluhúsnæði fyrir listaverk safnsins. Listasafnið hefur haft til umráða 330 fermetra rými að Steinhellu 17A í Hafnarfirði.
Fram kemur í bréfi frá fjármála- og áhættusviði að kostnaður vegna viðbótarleigu rúmast ekki innan rekstrarramma menningar- og ferðamálasviðs (MOF) en áætlaður viðbótarkostnaður vegna leigu á stærra varðveislurými í Vikurhvarfi 1 nemur 1.000.734 krónum á mánuði. Gert verði ráð fyrir hækkun leigu í fjárhagsramma MOF frá og með árinu 2022.
„Þetta er ekki lág leiga“
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sátu hjá við afreiðslu málsins.
Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:
„Hér er verið að gera leigusamning á geymsluhúsnæði til 10 ára. Borgin ætti að skoða þann valkost að eiga húsnæði sem þetta í stað þess að leigja sífellt meira húsnæði undir starfsemi sína.“
Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins lagði fram svohljóðandi bókun:
„Leiga fyrir Listasafn Reykjavíkur. Sé þetta hagstæðasta tilboðið verður svo að vera, en þetta er ekki lág leiga: Leigugjaldið er 1.452.700 krónur á mánuði fyrir 730 fermetra.“