„Kvartanir og umvandanir eiga nú greiða leið í fjölmiðla og þar birtist reiði einstakra frambjóðenda yfir eigin örlögum. Áður báru þeir harm sinn yfirleitt í hljóði. Nú er leitað til lögreglu eða þess krafist að stuðst sé við talningu sem reyndist röng eða kosningin sé endurtekin! Hvergi er vikið að nokkru saknæmu eða svindli við framkvæmd kosninganna,“ segir Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, í grein í Morgunblaðinu í dag.
Helsta fréttamál vikunnar hefur verið framkvæmd talningar atkvæða í Norðvesturkjördæmi eftir alþingiskosningarnar. Villa kom upp í fyrstu talningu og var þá talið aftur. Sú talning hefur verið dregin í efa þar sem ekki þykir hafið yfir allan vafa að ekki hafi verið átt við atkvæði. Hefur til dæmis verið gagnrýnt harðlega að atkvæði hafi ekki verið innsigluð og þau ekki geymd í læstum vistarverum. Við endurtalningu misstu fimm þingmenn sæti sitt og aðrir fimm komust inn á þing. Þessar breytingar voru þó allar innan flokka og hafa ekki áhrif á niðurstöður kosninganna í heild. Tveir frambjóðendur hafa kært framkvæmdina, einn vill að kosið verði aftur og annar að niðurstöður fyrri talningar gildi.
Birni þykir málið uppblásið og segir í upphafi greinar sinnar:
„Næsta grátbroslegt er að málsvarar „nýju stjórnarskrárinnar“ fullyrði að reiknivilla við samlagningu atkvæða í NV-kjördæmi sanni að setja þurfi lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Málflutningurinn er líklega síðasta andvarpið til stuðnings „nýju stjórnarskránni“. Flokkunum sem vilja hana, Samfylkingu og Pírötum, var hafnað í þingkosningunum fyrir réttri viku.“
„Nú er gert tortryggilegt að alþingismenn eigi sjálfir síðasta orðið um hvort kjörbréf séu gild,“ segir Björn ennfremur. Margir hafa lýst áhyggjum af þeirri stöðu að Alþingi sjálft úrskurði um hvort kjörbréf séu gild þar sem þingmenn kunni þá að vera að taka afstöðu í máli sem varðar hagsmuni þeirra sjálfra. Björn gefur lítið fyrir þetta og bendir á að það sé ein af „grundvallarrreglum í stjórnmálum lýðræðisríkja að þingmenn taki ákvarðanir um hvaða hagsmuni eigi að taka fram yfir aðra. Séu þeir tengdir þeim með mjög persónulegum hætti sé þeim auðvitað í sjálfsvald sett af siðrænum ástæðum að segja sig frá máli. Það sé þeirra ákvörðun og á þeirra ábyrgð.“
Björn segir þessa framkvæmd byggja á skýru ákvæði í stjórnarskránni sem engin ástæða sé til að víkja til hliða. Engin óvissa ríki um úrslit kosninganna:
„Það ríkir ekki nein óvissa um úrslit kosninganna. Þegar alþingi kemur saman verður útgáfa kjörbréfa til 63 einstaklinga staðfest. Það er verkefni þingmanna að ljúka þessu máli.“