Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að miklar líkur séu taldar á að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra ef af áframhaldandi samstarfi verður en líklega verði stokkað upp í stjórninni að öðru leyti.
Blaðið segist hafa heimildir fyrir að ráðuneytisstjórar ráðuneytanna hafi fundað tveimur vikum fyrir kosningar og rætt möguleika á tilflutningi verkefna á milli ráðuneyta. Þeir koma þó ekki að uppstokkun verkefna fyrr en á síðari stigum.
Margir möguleikar eru sagðir koma til greina við fjölgun ráðuneyta. Rætt er um nýtt innviðaráðuneyti sem Framsóknarflokkurinn hefur talað fyrir og að skipta sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu upp í tvö ráðuneyti. Ef af því verður kæmi að sögn til greina að skógrækt og landgræðsla færist frá umhverfisráðuneytinu yfir í landbúnaðarráðuneytið.
Fréttablaðið segir að ólíklegt þyki að Vinstri grænir muni gjalda fyrir fylgistapið í kosningunum með minni áhrifum innan ríkisstjórnarinnar. Flokkurinn verði líklega áfram með þrjú ráðuneyti. Flokkurinn muni þó væntanlega missa embætti forseta Alþingis og gæti Sjálfstæðisflokkurinn fengið það.
Ef ráðuneytum verður fjölgað mun Framsóknarflokkurinn væntanlega njóta þess og fá fjóra ráðherra og Sjálfstæðisflokkurinn halda sínum fimm.