fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Eyjan

Harmaborgin rís en íbúar mótmæla – „Það verður óbúandi í þessum 90 íbúðum í allt að þau 7 ár sem áætlað er að verkið taki“

Tobba Marinósdóttir
Laugardaginn 9. janúar 2021 17:32

Fólki líst misvel á breytingarhugmyndirnar og er því farið að uppnefna Hamraborgina Harmaborgina. MYND/SKIPULAGSKYNNING KOPAVOGUR.IS

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hamraborgin er miðbær Kópavogs, þó ekki hafi sá kjarni verið sjón að sjá undanfarin ár. Nú stendur til að taka Hamraborgina í yfirhalningu, byggja þar mikið af íbúðarhúsnæði og reyna að blása nýju lífi í þennan dauflega miðbæ í þeirri von að þar verði blómlegt mannlíf og umhverfi þar sem Kópavogsbúar geta notið sín, sem og til að þétta byggð á svæði þar sem Borgarlínunni er ætlað stórt hlutverk. Í greinargerð um breytingar á aðalskipulagi segir:

„Skipulagsbreytingin er í samræmi við fyrirhugaða fjölgun íbúa höfuðborgarsvæðisins um a.m.k. 60.000 til ársins 2040 og verði þá um 275.000 íbúar á höfuðborgarsvæðinu sem mun að öllum líkindum fela í sér aukningu á umferð. Til að bregðast við þessari þróun hefur verið farið í innleiðingu á uppbyggingu fyrir Borgarlínu og samgöngumiðuðu skipulagi. Borgarlína er grundvöllur þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og þróunarásum og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka. Gert er ráð fyrir auknum byggingaheimildum á þróunarás hennar og dregið úr kröfum um fjölda bílastæða, sem gerir byggingaraðilum kleift að byggja á þéttingarsvæðum með hagkvæmari hætti.“

Skuggar í skjóli nætur

Kópavogsbær seldi húsnæði í Hamraborginni, Fannborg 2, 4 og 6 til fyrirtækisins Árkórs ehf. árið 2017 og er vonast til að framkvæmdir megi hefjast á þessu ári. Eru margir íbúar uggandi yfir þessum áformum og eru ástæður fyrir því þó nokkrar.

Samkvæmt upprunalegum áformum átti að rífa húsnæðið í Fannborginni og í stað þeirra áttu að rísa háar byggingar. Háum byggingum fylgja óhjákvæmilega áhyggjur af skugganum sem þær varpa, áhrifum þeirra á vind og þar fram eftir götunum. Eins er byggingunum ætlað að rísa mjög þétt upp við eldri byggingar og munu því íbúar Hamraborgar fá að finna vel fyrir framkvæmdunum sem líklega munu standa yfir um árabil.

„Þrjá metra frá svefnherbergisglugganum hjá íbúum í fannborg 1, 3, 5 og 7 verður brotið niður 7 metra ofan í bergið – til að rýma fyrir tveggja hæða bílakjallara. Það verður óbúandi í þessum 90 íbúðum í allt að þau 7 ár sem áætlað er að verkið taki,“ segir Jón Gestur Sveinbjörnsson stjórnarmaður í Fannborg 1-9. Hann segir mikla óánægju vera meðal íbúa en eigendur 100 íbúða hafa mótmælt framkvæmdinni. „Svo bætist við þetta 14 hæða turn 8-10 metra frá húsinu.“

Á þessu svæði búa margir eldri borgarar en samtökin Sunnuhlíð eru eigendur Fannborgar 8. Samtökin mótmæltu fyrirhugaðri uppbyggingu strax árið 2017 og viðruðu áhyggjur af bílastæðum sem myndu tapast við framkvæmdirnar, skertu útsýni, skerðingu á friðhelgi einkalífs fólks vegna nálægðar við nýbyggingu og rýrðu verðgildi eigna.

Leigusali verkfræðistofu

Það hefur einnig vakið tortryggni að greining á áhrifum vinds á svæðinu hafi verið unnið af Örugg verkfræðistofu. En sú verkfræðistofa er með húsnæði í Fannborg 2, og því Árkór ehf. að líkindum leigusali stofunnar sem vekur upp spurningu um hvort greiningin sé hlutlæg eða ekki.

Annað sem hefur vakið furðu er að í bókun frá fundi bæjarráðs þann 27. júní 2019 segir:

„Frá Árkór ehf., dags. 25. júní, lögð fram beiðni um endurmat á byggingarstigi Fannborgar 2 þar sem óskað er eftir að byggingarstig hússins verði fokhelt. Bæjarráð samþykkir erindið með fimm atkvæðum.“

Rakaskemmdir höfðu fundist í húsnæðinu fyrr um árið og grunur vaknaði um myglu. Engu að síður er húsnæðið enn auglýst til útleigu og þá sem tilbúið skrifstofuhúsnæði, þrátt fyrir að vera núna skráð fokhelt. Ein ástæða þessa gæti verið skattalegt hagræði, en lægri fasteignaskattar eru greiddir af fokheldum byggingum en ella.

182 milljóna leiga

Kópavogsbær hefur svo gert leigusamning við Árkór um leigu á Fannborg 6. Leigutími er samkvæmt samningi frá maí 2018 fram í maí 2023. Um leigufjárhæð segir í samningi:

„Umsamin leigufjárhæð er kr. 2.000- (án vsk.) á mánuði fyrir hvern fermetra (heildar flatarmál skv. 1. gr), verðbætt með neysluverðsvísitölu frá undirritun kaupsamnings.“

Heildarflatarmál hins leigða er 1.515,3 fm sem þýðir að Kópavogsbær greiðir 3.030.600 kr. á mánuði hið minnsta. Ef bærinn greiðir út samningstímann þá munu leigugreiðslur nema tæplega 182 milljónum.

Á bak við Árkór ehf. standa sömu aðilar sem standa að baki Hafnartorgi í miðborg Reykjavíkur, Guðni Rafn Eiríksson og Gísli Steinar Gíslason, en Hafnartorgið hefur verið kallað skipulagsslys. Þar hafi verið háleitar áætlanir um blómlega verslun og mannlíf en útkoman sé eyðileg steinlögð gata sem fáir leggja leið sína um vegna óþægilegra vinda.

Samkvæmt þeim myndum sem hafa verið teiknaðar af fyrirhugaðri uppbyggingu Árkórs í Hamraborg má sjá að byggingarnar eru í sama stíl og Hafnartorgið og vakna því eðlilega áhyggjur um að örlög nýrrar Hamraborgar verði þau sömu og Hafnartorgsins.

Eins var bæjarstjórn Kópavogs harðlega gagnrýnd fyrir að leggja til nýtt deiliskipulag fyrir svæðið í skjóli kórónuveirunnar með því að taka ákvarðanir tengdar málefninu á streymdum fundum.

„Stór hluti af eldri borgurunum á ekki tölvu, okkur er meinað að halda húsfund og við höfum mótmælt þessu harðlega. Það eru yfir 1.000 íbúar í Fannborg og Hamraborg sem vita ekki af þessu og átta sig ekki á því hvað er að gerast,“ segir Jón Gestur.

Íbúafundur hafi farið fram í gegnum fjarfundabúnað og hafi lítilli sem engri orku verið varið í að gera íbúum grein fyrir hvenær fundurinn væri og hvernig þeir gætu tekið þátt. Bæjarstjórinn, Ármann Kr. Ólafsson, hefur þó bent á að öllum reglum hafi verið fylgt. Hörðustu andstæðingar

nýrrar Hamraborgar hafa stofnað Facebook-hóp um baráttumálið – Vinir Hamraborgar og má þar finna líflegar umræður um væntanlega uppbyggingu.

Fyrir þá sem vilja kynna sér þetta málefni betur er bent á kynningarfund um fyrirhugaða uppbyggingu á Traðareit þann 14. janúar milli 16.30 og 18.00 en fundinum verður streymt á heimasíðu Kópavogs, kopavogur.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn

Orðið á götunni: Björn reynir að túlka afhroð ríkisstjórnarinnar sem ákall um hægri stjórn
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK

Þrír nýir forstöðumenn hjá OK