Morgunblaðið skýrir frá þessu í dag. Segir blaðið að væntanleg bankasala verði tekin til umfjöllunar strax í dag þegar Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, flytur Alþingi munnlega skýrslu um málið og stöðu þess.
Blaðið segir að Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, telji að ríkisstjórnin þurfi að undirbúa söluna betur áður en lagt verður upp í þá vegferð. Mikilvægt sé að verja almannahag í ferlinu. Það sama eigi við um atvinnumál en nú sé þörf fyrir uppbyggingu og nýsköpun eftir COVID-faraldurinn.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, mun á næstunni leggja fram frumvarp til breytinga á nokkrum ákvæðum stjórnarskrárinnar. Þetta eru ákvæði sem snúa að auðlindum í þjóðareign, umhverfis- og náttúrumálum, þjóðtungunni og ýmsum atriðum varðandi framkvæmdarvaldið og embætti forsetans.
Morgunblaðið hefur eftir Kolbeini Óttarssyni Proppé, þingmanni VG, að hann telji brýnt að stjórnarskrárfrumvarpið verði að lögum á vorþinginu og að hann eigi von á líflegum umræðum þar sem átakalínurnar séu skarpar.