Markaður Fréttablaðsins skýrir frá þessu í dag. „Það virðist gleymast í umræðunni að bankarekstur er mjög áhættusamur og ekki að því vísu gengið að fá milljarða í arðgreiðslur ár eftir ár, enda getur gefið á bátinn á fjármálamörkuðum eins og flestir Íslendingar ættu að muna,“ sagði Friðrik í samtali við Fréttablaðið.
Gagnrýni hefur komið fram á fyrirhugaða sölu á Íslandsbanka og hefur verið nefnt að hugsanlega sé verið að selja á undirverði. Markaðurinn hefur eftir Snorra Jakobssyni, sérfræðingi í verðmati hlutabréfa, að ríkissjóður megi vel við una að selja á því verði sem er bókfært í ríkisreikningi en það samsvarar 80% af bókfærðu eigin fé. Líklega verði söluverðið þó lægra því arðsemi íslenskra og erlendra banka hafi heldur lækkað á síðustu árum.
Markaðurinn hefur eftir Óla Birni Kárasyni, formanni efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, að mikilvægt sé að ríkið dragi úr þátttöku sinni á fjármálamarkaði. „Að ríkissjóður skuli binda 350 til 400 milljarða í áhætturekstri á borð við bankarekstur er eitthvað sem ekki getur staðist til lengdar. Þessum fjármunum er betur varið í uppbyggingu mennta- og heilbrigðiskerfis, svo eitthvað sé nefnt. Síðan er það ábyrgðarhluti að tryggja það að framtíðarkynslóðir séu ekki sligaðar af skuldum hins opinbera, en söluandvirði Íslandsbanka verður varið til fjármögnunar á halla ríkisrekstursins,“ sagði hann.