Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sat í stýrihópi um loftslagsstefnuna. Fréttablaðið hefur eftir henni að hún sé ekki endilega sammála öllu sem fram kemur í stefnunni og því sé hún með fyrirvara við stefnuna í heild sinni og hafi gert bókun um það. Hún hafi hins vegar ekki greitt atkvæði á móti henni því tillit hafi verið tekið til sjónarmiða hennar.
Í stefnunni er ekkert minnst á nagladekk og hefur Fréttablaðið eftir Vigdísi að ástæða sé fyrir því. „Það sem birtist okkur er að það er mikil uppbygging á Suðurlandi vegna lóðaskortsstefnu meirihlutans í borginni. Fólk er að leita eftir stærra húsnæði, jafnvel leikskólaplássi en foreldrarnir þurfa að sækja vinnu til borgarinnar. Það er því ekkert hægt að taka nagladekk úr umferð,“ sagði hún. Hún benti einnig á að götur séu illa þrifnar.
Í skýrslu Vegagerðarinnar, Losun svifryks frá gatnakerfinu á höfuðborgarsvæðinu – ferlar og líkan, segir að verulega þurfi að draga úr notkun nagladekkja því næmnigreining gefi til kynna að nagladekkjanotkun sé langveigamesti þátturinn í svifryksmyndun frá umferð á höfuðborgarsvæðinu.