Ríkisstjórnin er sigurvegari síðustu kosninga samkvæmt leiðarahöfundi Morgunblaðsins í dag. Þar segir hinn nafnlausi höfundur jafnframt að líta verði til niðurstöðu kosninga og skoðanakannana til jafns þegar væntingar landsmanna eru greindar. „Þar kann persónulegur stuðningur við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra jafnframt að vera vísbending um hvað þorri fólks vill um stjórn landsins, en um það bera bæði skoðanakannanir og mikil fylgisaukning flokks hennar á lokasprettinum vitni,“ segir höfundurinn.
Þegar litið er til kjörfylgis einstakra flokka ber hæst árangur Framsóknarflokksins, sem bætti við sig miklu fylgi og er ásamt Flokki fólksins helsti hástökkvari kosninganna. Þar skipti traust ímynd Sigurðar Inga Jóhannssonar ásamt frumkvæði Ásmundar Einars Daðasonar vafalaust miklu máli. Á hitt ber þó einnig að líta að Framsóknarflokkurinn lagði ekki sömu áherslu á einstök málefni og samstarfsflokkarnir, svo mögulega uppskar hann ríflegar atkvæði þeirra stuðningsmanna stjórnarinnar, sem áttu erfiðara með að taka afstöðu til flokkanna eftir öðrum kosningaáherslum en endurnýjuðu stjórnarsamstarfi. Loks skiptir það Framsókn örugglega miklu máli, að flokkurinn endurheimti um helftina af því fylgi, sem hann áður tapaði til Miðflokksins.
„Vinstri græn geta vel unað við sitt,“ segir höfundurinn þá, og bendir á að svo virðist sem margir óákveðnir hafi að endingu kosið VG og þrátt fyrir upphaflegt fylgistap í kjölfar stjórnarmyndunar í upphafi síðasta kjörtímabils hafi flokkurinn endurnýjað það fylgi að mestu.
Sjálfstæðismenn, bendir hann jafnframt á, fengu nánast sama fylgi og í kosningunum 2017, sem leiðarahöfundur segir vera traustsyfirlýsingu við forystuna og ríkisstjórnina. „En nýjabrum í stefnuáherslum hans virðist ekki hafa hreyft sérstaklega við kjósendum. Það ætti að vera flokknum brýning um erindi hans sem borgaralegs burðarflokks íslenskra stjórnmála. Fjórðungur atkvæða er ágætur árangur í hinu nýja margklofna stjórnmálaumhverfi landsins, en Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa metnað um enn breiðari skírskotun til þjóðarinnar en það,“ segir höfundurinn.
Ómögulegt er að líta á kosningaúrslitin sem ákall um breytingar, segir leiðarahöfundur. Þess heldur segir hann niðurstöðuna ákall um stöðugleika og endurnýjun stjórnarsáttmála sömu ríkisstjórnar, og að kjósendur hafi jafnframt hafnað öfgum:
Kosningaúrslitin eru ekki aðeins stuðningsyfirlýsing við ríkisstjórnina, þau hljóta einnig að vera öllum stjórnarandstöðuflokkum nema Flokki fólksins tilefni til þess að huga að erindi flokkanna. En þau eru meira en það. Skilaboðin eru skýr: kjósendur höfnuðu öfgunum.
Skýrt er hvernig þeir höfnuðu öfgum, hræsni og hótunum Sósíalistaflokksins um óskaland þeirra, þar sem ráðast átti að pólitískum andstæðingum, stórfyrirtækjum, frjálsri fjölmiðlun og jafnvel Hæstarétti.
En kjósendur höfnuðu einnig öfgum sumra annarra stjórnarandstöðuflokka, sem sumar voru ófrávíkjanlegar höfuðáherslur. „Nýju stjórnarskránni“, gjaldmiðlaskiptum, uppstokkun í sjávarútvegi, Evrópusambandsumsókn og skattpíningarhugmyndum; öllu þessu höfnuðu kjósendur.
Þetta, segir höfundurinn, vera áfall fyrir „hið orðljóta vinstri og afarpólitík þess.“
Það sést á því hvernig bæði Samfylking og Píratar guldu sögulegt afhroð eftir að hafa verið í samfelldri stjórnarandstöðu frá 2013. Píratar fengu sinn lakasta árangur frá því fyrst var boðið fram og Samfylkingin er komin niður fyrir 10% fylgi. Báðir eiga flokkarnir það sameiginlegt að hafa sífellt færst lengra út á vinstri kant og hert á pópúlískum áherslum. Enn og aftur sannast að Íslendingar, líkt og aðrar vestrænar þjóðir, eru ekki eins vinstrisinnaðir að ekki sé sagt róttækir og forystufólk á vinstrivæng virðist hafa sannfært sjálft sig um í bergmálshellum sínum. Þar ráða beiskjan og dilkastjórnmálin ríkjum, hófsemi og málamiðlun fá ekkert rúm.
Kjörfylgi Flokks fólksins segir höfundur undirstrika fyrri orð hans. Einfeldni skilaboða flokksins um raunveruleg áhyggjuefni kjósenda, öfgaleysi í skilaboðum og að flokkurinn hafi hvorki útilokað fólk né flokka, ætti að vera eitthvað sem „hið ráðvillta vinstri,“ ætti að tileinka sér, segir hann að lokum.