fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Eyjan

Endurtalið eftir ábendingu frá formanni landskjörstjórnar – „Ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum“

Erla Hlynsdóttir
Mánudaginn 27. september 2021 16:29

Ingi Tryggvason, formaður yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis. Samsett mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ingi Tryggva­son, formaður yfir­kjör­stjórn­ar í Norðvest­ur­kjör­dæmi, segir að ábending frá Kristínu Edwald, formanni landskjörstjórnar, hafi orðið til þess að ákveðið var að endurtelja atkvæði í kjördæminu. Landskjörstjórn hefur ekki boðvald yfir yfirkjörstjórnum.

„Það kom ábending um að það væri lítill munur á milli jöfnunarsæta í kjördæminu og við beðin að skoða málið í því ljósi,“ segir Ingi.

Hvaðan kom þessi ábending?

„Hún kom frá formanni landskjörstjórnar. Hún lét okkur vita að það væri þessi litli munur og spurði hvort það gæfi okkur tilefni til að skoða málið. Hún gaf okkur ekki nein fyrirmæli um hvað við ættum að gera en við skoðuðum málið, það gaf okkur tilefni til að endurtelja og við bara gerðum það.“

Eru fordæmi þess að kjörstjórnin sjálf taki það upp hjá sér að telja aftur þegar búið er að gefa tölur út opinberlega?

„Ég hef ekki hugmynd um það. Ég veit allavega að það hefur verið endurtalið oftar en einu sinni eftir kosningar á Íslandi.“

Í kosningalögum segir:

  1. gr.Að talningu lokinni skal loka umslögum með ágreiningsseðlum með innsigli yfirkjörstjórnar og eiga umboðsmenn lista rétt á að setja einnig fyrir þau innsigli sín. Yfirkjörstjórn sendir [ráðuneytinu] 1)eftirrit af gerðabók sinni viðvíkjandi kosningunni ásamt ágreiningsseðlunum sem [ráðuneytið] 1) leggur fyrir Alþingi í þingbyrjun með sömu ummerkjum sem það tók við þeim. Þá skal yfirkjörstjórn setja alla notaða kjörseðla undir innsigli og skal gildum og ógildum kjörseðlum haldið sér. Kjörseðlana skal geyma þar til Alþingi hefur úrskurðað um gildi kosninganna, sbr. 120. gr., enda sé þeirra eigi þörf vegna kæru sem beint hefur verið til lögreglustjóra. Að því búnu skal eyða kjörseðlunum og skrá yfirlýsingu um það í gerðabók yfirkjörstjórnar.

 

Ingi viðurkenndi í samtali við Vísi í gær að kjörkassarnir hefðu ekki verið innsiglaðir á milli talningar og endurtalningar. Þeir hafi verið geymdir í læstum sal á hótelinu í Borgarnesi þar sem talningin fór fram, og frammi hafi verið öryggismyndavélar. Vísaði Tryggvi til þess að það væri gamalgróin hefð að skilja svona við atkvæðin.

Ingi var í ágúst á síðasta ári skipaður dómari við Héraðsdóm Reykjaness af Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, dómsmálaráðherra.

Nú ert þú ekki bara löglærður heldur starfandi dómari. Finnst þér ekki óheppilegt að þú hafir ekki farið eftir kosningalögum?

„Finnst mér það óheppilegt? Það eru örugglega önnur atvik, ekki endilega í sambandi við þessar kosningar heldur framkvæmd kosninga almennt, sem ég hefði meiri áhyggjur af en þessu,“ segir hann.

Viltu deila með mér hvaða atvik það eru?

„Nei, nei. Ég get samt nefnt því það er verið að tala um þessi innsigli. Það var einn sem benti á það í gær að þú getur tekið þessi innsigli af og sett þau aftur á án þess að nokkur taki eftir því. Þessi innsigli eru afar ómerkileg. Ef einhver vill svindla þá gera þessi innsigli ekkert gagn. Jafnvel þó það væru almennileg innsigli, ef menn ætla að svindla í kosningum þá svindla þeir í kosningum.“

En það segir samt í kosningalögum að kassarnir eigi að vera innsiglaðir.

„Ég veit það alveg. Ég er bara að tala um framkvæmdina. Ég er bara að tala um hvað þetta er fíflaleg umræða. Þetta er geymt í læstum sal þar sem eru öryggismyndavélar fyrir utan. Ég skil ekki af hverju þetta er allt í einu komið upp. Ástæða þess að það er endurtalið tengist því ekkert að einhver óviðkomandi hafi verið inni í salnum. Þetta er bara allt annað mál.“

Ljóst er að Inga líkar illa umræðan sem er í gangi varðandi endurtalninguna.

„Nú allt í einu vilja menn meina að það hefði ekki átt að endurtelja. Þá þurfa menn ekkert að hafa áhyggjur af framkvæmd kosninga ef endurtalning á ekki að gilda, sem er væntanlega hin rétta niðurstaða. Nú vilja menn bara banna endurtalningu. Það á bara að telja einu sinni og það á að standa, alveg sama þó menn komist að því að talningin sé vitlaus. Á það bara að standa? Við komumst að því að það var smá ágalli á talningunni, að við höfðum mislesið nokkur atkvæði. Við komumst að því og þess vegna endurtöldum við. Kannski hefðum við bara átt að segja að við hefðum komist að þessu en þó fyrri talningin sé hugsanlega röng þá skulum við bara samt láta hana standa. Mér skilst að menn vilji hafa það svoleiðis núna. Þetta er allt komið á haus. En þetta er ekki lengur mitt vandamál.“

Karl Gauti Hjaltason ætlar að kæra framkvæmd talningarinnar til lögreglu, en hann féll úr jöfnunarsæti fyrir Miðflokkinn við endurtalninguna. Þá hefur Magnús Norðdahl, oddviti Pírata í kjördæminu, sagst ætla að kæra framkvæmdina til kjörbréfanefndar Alþingis og fara fram á svokallaða uppkosningu sem felur í sér að kosið yrði að nýju í Norðvesturkjördæmi.

Sjáðu muninn milli talninga sem felldi Karl Gauta – Auðum seðlum fækkaði um tólf

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum

Vilhjálmur Birgisson skrifar: Mikilvægi faglegrar erlendrar úttektar á gjaldmiðlamálum
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?

Svarthöfði skrifar: Markaðslaun fyrir kennara – hví ekki markaðskjör?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð

Ásdís Rán útilokar ekki annað forsetaframboð
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar

Thomas Möller skrifar: Búðu þig undir ESB kosningar