Viðskiptablaðið tekur tvo þekkta frambjóðendur til alþingiskosninganna sem verða á morgun fyrir í nýjum skoðanapistli. Annars vegar er þar um að ræða vonarstjörnu Samfylkingarinnar, Kristrúnu Frostadóttur, og hins vegar forystumann Sósíalistaflokksins, Gunnar Smára Egilsson.
Báðir frambjóðendurnir hafa átt góðu fylgi að fagna í skoðanakönnunum, flestir eru sammála um að Kristrún eigi stóran þátt í fylgisaukningu Samfylkingarinnar og málflutningur og skelegg skrif Gunnars Smára hafa um fram annað hafa haldið merki Sósíalistaflokksins vakandi í þjóðarvitundinni. En Viðskiptablaðið er ósátt við hvernig þessar tvær stjörnur kosningabaráttunnar bregðast við gagnrýni og óhagstæðum fréttaflutningi.
Kristrún var mjög ósátt við umfjöllun Viðskiptablaðsins og Morgunblaðsins um kaupréttarsamninga hennar frá þeim tíma er hún starfaði hjá Kviku banka og taldi um samantekin ráð tveggja fjölmiðla væri um að vera að sér. Þetta gerði hún í umtöluðum færslum á Twitter. Viðskiptablaðið bendir á að Kristrún hafi ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum blaðsins:
„Alþingiskosningar fara fram á laugardaginn. Eðlilega gætir taugatitrings á meðal frambjóðenda enda mikið í húfi. Það hefur samt verið hryggilegt að fylgjast með framgöngu sumra frambjóðenda.
Nýlegt dæmi er þegar Kristrún Frostadóttir, frambjóðandi Samfylkingarinnar, svaraði ekki ítrekuðum fyrirspurnum Viðskiptablaðsins vegna fréttar um kauprétti. Þegar frambjóðandinn var búinn að fá símtöl eða skilaboð í fimm daga í röð var ákveðið að birta fréttina á sunnudaginn var enda litið svo að búið væri að sýna viðkomandi nægjanlega sanngirni – tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Mýmörg fordæmi eru fyrir þessu í fréttamennsku á Íslandi og um víða veröld. Það að svara ekki fjölmiðli þýðir nefnilega ekki að frétt deyi drottni sínum. Það er ekki hægt að þagga mál með þessum hætti.“
Viðskiptablaðið segir að Kristrún hafi stillt sér upp sem fórnarlambi í umræddum Twitter-færslum. Segir að þar hafi Kristrún beitt taktík sem Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, hafi ítrekað beitt og segir að þeir sem telji að fjölmiðlar séu í persónulegu stríði gegn sér þurfi að líta í spegil og spyrja sig gagnrýninna spurninga.
Nafnlaus pistilhöfundur Viðskiptablaðsins segir um Gunnar Smára:
„Annað dæmi er orðræða Gunnars Smára Egilssonar, fyrrverandi forstjóra og ritstjóra og núverandi forystumanns Sósíalistaflokks Íslands. Hann dregur fjölmiðla landsins í dilka eftir því hvar eignarhaldið liggur svona eins og blaðamenn viðkomandi miðla séu tilbúnir að fórna ærunni fyrir eigendurna. Hann ætti að vita betur en óhjákvæmilega rifjast upp orðasambandið „margur telur mig sig“. Það furðulega er samt barlómurinn um að sífellt sé verið að rifja upp og spyrja hann út í hans fortíð eins og til dæmis „lítið“ gjaldþrot Fréttatímans. eins og hann orðaði það. Viðskiptablaðið dregur í efa að þeim blaðamönnum, sem misstu vinnuna vegna gjaldþrotsins hafi þótt það „lítið“.“
Segir að ekkert sé óeðlilegt við að Gunnar Smári sé spurður út í fortíð sína, blaðamenn væru ekki að sinna starfi sínu ef þeir myndu ekki spyrja hann hvort hann væri trúverðugur í hlutverki forystumanns sósíalista þegar haft væri í huga að hann hafi stýrt stærsta fjölmiðlaveldi Íslands, ferðast um á einkaþotum og verið með milljónir króna í mánaðarlaun.