Samkvæmt nýrri könnun MMR fyrir Morgunblaðið um fylgi stjórnmálaflokkanna er ríkisstjórnin fallin með 31 þingmann samtals af 63. Litlar fylgisbreytingar þurfa þó að eiga sér stað til að ríkisstjórnin haldi velli með 32 eða 33 þingmenn. Könnunin var gerð dagana 22.-23. september. Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur eru á uppleið samkvæmt könnuninni en VG tapar fylgi.
Fylgi í þremur síðustu skoðanakönnunum MMR fyrir Morgunblaðið, frá 15. til 23. september, skiptist með eftirfarandi hætti:
Sjálfstæðisflokkur 22,9% og 14 þingmenn
Framsókn 16,4% og 11 þingmenn
Miðflokkur 5,8% og 3 þingmenn
Viðreisn 12% og 7 þingmenn
Flokkur fólksins 6,2% og 4 þingmenn
Samfylkingin 11,5% og 8 þingmenn
VG 9,7% og 6 þingmenn
Píratar 9,9% og 6 þingmenn
Sósíalistar 5,1% og 4 þingmenn
Athygli vekur að Sósíalistaflokkurinn er ekki öruggur inn á þing eins og hann hefur virst í öðrum könnunum undanfarið. Hann er þó inni samkvæmt þessum tölum. Morgunblaðið les þannig í þessar kannanir að ríkisstjórni gæti haldið því litlar breytingar þurfi að eiga sér stað á fylginu til að hún komist í meirihluta. Blaðið dregur þróunina undanfarið saman með eftirfarandi orðum:
„Ef litið er á fylgishreyfingar í þessari viku er greinilegt að Framsókn, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkur eru að sækja í sig veðrið á lokasprettinum með frekar afgerandi hætti, en herslumuninn vantar til þess að stjórnarflokkarnir haldi velli. Þar munar mest um að vinstriflokkarnir hafa tekið að dala á ný og er fylgi þeirra frekar að fletjast út. Samfylkingin hefur þannig tapað mestallri fylgisaukningu liðinna vikna. Hlutfallslega hefur Sósíalistaflokkurinn þó tapað mestu fylgi frá því í liðinni viku, þegar hann var með hátt í 9% en er nú við 5% fylgi.
Fylgi Flokks fólksins hefur hins vegar styrkst talsvert og sömuleiðis virðist Miðflokkurinn vera að treysta sig, þó hann sé enginn hástökkvari.“