„Gott að hafa í huga fyrir þessar kosningar að Fréttablaðið, Hringbraut og DV er í eigu fjárhagslegs bakhjarls Viðreisnar; Morgunblaðið og Viðskiptablaðið eru í eigu fólks sem styður Sjálfstæðisflokkinn og Ríkisútvarpið er undir stjórn fólks úr Sjálfstæðisflokknum eða fólks sem sá flokkur hefur blessað.“
Þetta segir Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins á Facebook í dag. Hann vill meina að í núverandi fjölmiðlalandslagi endurspegli umræðan í fjölmiðlum ekki sjálft samfélagið, heldur vilja hagsmunahópa. Hann segir jafnframt að hlutverk fjölmiðla í kapítalísku kerfi sé að sætta fólk við óbreytt ástand.
Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson er alls ekki sammála þessari greiningu Gunnars Smára, en hann spyr: „Og óbreytt ástand verandi þá að fjölmiðlar eiga í vök að verjast?“
Jakob bendir á að sjálfur hafi hann starfað í blaðamennsku í nokkra áratugi, og segist aldrei hafa heyrt neitt í líkingu við það sem Gunnar Smári hefur að segja.
„Ég hef verið í blaðamennsku í þrjátíu ár og ég hef bara aldrei heyrt annað eins, né neitt í líkingu við slíkt leiðarstef. Hættu að gera út á þetta kjánalega hatur á fjölmiðlum. Blaðamenn starfa í umboði almennings.“ Segir Jakob.
Í kjölfarið rekur Gunnar hugmyndir sínar til fræðimannsins Noam Chomsky, og bendir Jakobi á að lesa hann, þá líklega bókina Manufacturing Consent, sem kom út árið 1988.
Jakob tekur ekki vel í meðmæli Gunnars og segir: „Chomsky er tótallí ofmetinn eins og svo margir sem tala fjálglega um fjölmiðla en vita ekkert um þá. Þú átt hins vegar að vita betur.“
Í kjölfarið ítrekar Gunnar að Jakob eigi að lesa bókina, en hann svarar um hæl. Hann segir háskólasamfélagið reiða of mikið á Chomsky og gefur til kynna að blaðamenn sem komi þaðan séu stundum ekki „nothæfir“ vegna hugmynda hans.
„Ég þekki þetta samsæriskenningaórarugl sem meðal annars akademían á Íslandi byggir á. Því miður. Fyrsta sem þarf að gera við hvern mann sem kemur þaðan inná alvöru ritstjórn er að senda hann í gott lúsabað. Svo viðkomandi sé nothæfur sem blaðamaður. Og þá ekki til að hlaða stein í vörðu ríkjandi ástands heldur þvert á móti.“