Miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum innlendis og erlendis undanfarið voru meðal annars til umræðu í Silfrinu á RÚV í dag. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, benti á að sérfræðingar erlendis óttuðust yfirvofandi hrun á hlutabréfamörkuðum. Hann velti því fyrir sér í hvaða ástand heimurinn sé að sigla með miklum hlutabréfahækkunum undanfarið sem ekki virðist innstæða fyrir.
Miklar hækkanir á hlutabréfamörkuðum innanlands undanfarið hafa vakið athygli og jafnvel áhyggjur. Halldór Benjamín Þorbergssson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, benti á að helstu ástæðurnar fyrir hækkununum á innlendum hlutabréfamarkaði væru lágir vextir hérlendis.
Konráð Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs, tók undir það og minnti á að vextir hefðu líka verið farnir að lækka fyrir Covid-kreppuna og því væri komið nokkuð langt tímabil lágra vaxta (og því eðlilegt að fjármagn leiti frekar ávöxtunar á hlutabréfamarkaði en skuldabréfamarkaði). Konráð segir ennfremur að hlutabréfamarkaðurinn hefði átt töluvert inni enda hefði hlutabréfaverð fyrirtækja ekki hækkað í langan tíma. Konráð sagði að hrun hér innanlands væri alveg ný umræða.
Ragnar Þór benti þá á að mögulegt hrun á erlendum hlutabréfamörkuðum gæti haft mikil áhrif hérlendis og við þyrftum að huga að því.
Halldór sagði að undirliggjandi rekstur fyrirtækjanna sem hafa verið að hækka á markaði hér undanfarið væri góður en engu að síður vektu þessar miklu hækkanir spurningar.