Ríkisstjórnin er fallin og vinstri flokkar á uppleið samkvæmt nýrri skoðanakönnun um fylgi stjórnmálaflokkanna sem MMR vann fyrir Morgunblaðið.
Samkvæmt könnuninni fengi Sjálfstæðisflokkurinn aðeins 20,3% prósenta fylgi en Sósíalistaflokkurinn mælist með 8,6%. Samfylkingin fengi 13,0% sem er svipað fylgi og í síðustu kosningum, VG 12,1%, Framsóknarflokkurinn 12,7% og Píratar 11,8%. Viðreisn er með 10,7%.
Samkvæmt þessari könnun heldur Flokkur fólksins velli á þingi með 5,6% en Miðflokkurinn ekki, fengi 4,5% en lágmark 5% fylgi þarf til að fá fólk kjörið á þing.
Samkvæmt könnuninni fengju ríkisstjórnarflokkarnir 31 þingmann kjörinn og er stjórnin því fallin. Engin þriggja flokka stjórn er möguleg miðað við þessar niðurstöður.
Ein vika er til Alþingiskosninga, þær verða næstkomandi laugardag.