Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, birtir í dag grein á Kjarnanum þar sem hann sakar eigendur félaganna MB2015 ehf. og Lindarvatns um sýndarviðskipti og vafasama fléttu. Hann greinir frá því að í efnahagsreikningi félagsins komi fram að það hafi árið 2015 keypt hlutabréf fyrir 20 þúsund krónur á árinu en selt þau fyrir 456 milljónir á sama ári.
Grein Ragnars er að hluta til viðbragð við grein Árna Helgasonar fyrir skömmu þar sem hann lýsir þeirri skoðun að reiðin hafi tekið völdin í samfélagsumræðunni og hófsamar raddir sem bendi á að þrátt fyrir ýmsa vankanta á samfélaginu sé staðan heild góð megi sín lítils: „Úr verður einhvers konar sérkennileg keppni um að tala nógu hátt inn í reiðina. Við sjáum ákveðin merki um þetta í kosningunum sem eru fram undan. Tilfinningin er stundum sú að við séum ekki að kjósa í landi sem teljist í fremstu röð í alþjóðasamanburði, heldur landi sem er nánast í rúst, “ segir Árni.
Í grein sinni segir Ragnar að Árni sé eigandi í MB2015 ehf. og telur Ragnar að félagið hafi fengi himinháar greiðslur fyrir ráðgjöf er varðar fjárfestingu Icelandair í félaginu Lindarvatn:
„Málið snýst um Icelandair, og uppbyggingu á Landssímareitnum, sem keypti hlut í Lindarvatni á tæpa tvo milljarða árið 2015. Icelandair er búið að afskrifa fjárfestinguna að mestu leyti en hefur á sama tíma veitt vel á annan milljarð í neyðarlán til að halda því gangandi. Hótelið átti að opna árið 2017 en framkvæmdir standa enn yfir og ekki liggur fyrir hvenær verklok verða,“ segir í grein Ragnars og hann spyr hvað hafi orðið um fjárfestingu Icelandair upp á 1,9 milljarðar í Lindarvatni.
Icelandair keypti 50% í Lindarvatni og hefur miðað við það metið verðmæti félagsins á 3,8 milljarða. Ragnar rekur málið í 18 liðum í grein sinni og telur að óeðlileg hagsmunatengsl hafi ráðið för í þessum viðskiptum.