Fréttablaðið skýrir frá þessu. Fram kemur að í grein Katrínar Júlíusdóttur, framkvæmdastjóra SFF, hafi brigður verið bornar á málflutning FÍB og iðgjaldahækkun skýrð með tilliti til ýmissa þátta.
FÍB telur að með greininni sé verið að brjóta á neytendum og hagsmunum þeirra. Runólfur Ólafsson, forstjóri FÍB, benti meðal annars á að á heimasíðu SFF segi: „ SFF er óheimilt að fara með opinbert fyrirsvar varðandi verðlagningu og þjónustu aðildarfélaga sinna og getur slíkt falið í sér sjálfstætt brot á samkeppnislögum. Tekur þetta m.a. til umræðu á opinberum vettvangi, um verð og verðbreytingar aðildarfélaga og um kröfur viðskiptavina þeirra um lægra verð eða bætt viðskiptakjör.“
Telur FÍB því að Katrín, fyrir hönd SFF, hafi brotið eigin reglur með fyrrnefndri grein.
Fréttablaðið náði ekki tali af Katrínu eftir að FÍB ákvað að senda kvörtunina til Samkeppniseftirlitsins en áður hafði hún verið spurð hvort skrif hennar væru viðeigandi. Hún svaraði því að hún hefði verið að horfa á starfsumhverfið þegar hún skrifaði grein sína. Umfjöllunin hafi verið um vátryggingamarkaðinn en ekki tryggingafélögin.