Mygla hefur fundist í leikskólanum Ægisborg við Ægissíðu í Reykjavík. Herma öruggar heimildir DV að að minnsta kosti einu af tveimur húsum leikskólans hafi verið lokað og að börnin þar verði í fyrstu send með rútum í Gufunesbæ, í hinum enda borgarinnar, en að þeim verði svo fundinn staður hjá KR.
Foreldrum var tilkynnt um málið á fundi með forráðamönnum skólans í gær. Sama dag var haldinn fundur í skóla- og frístundaráði Reykjavíkurborgar, sem meðal annars fer með málefni leikskóla í Reykjavík þar sem fulltrúar minnihlutans voru ekki upplýstir um málið. Þetta staðfestir Hildur Björnsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í ráðinu, í samtali við DV.
Hún segist fyrst hafa heyrt af málinu frá foreldrum barna í leikskólanum. „Það er mjög óheppilegt að við fulltrúar minnihlutans þurfum að heyra af málinu fyrst frá foreldrum, en á ráðsfundi skólaráðs í gærdag voru engar upplýsingar veittar jafnvel þó staðan hafi legið fyrir.“ Kurr er í foreldrum vegna málsins.
DV sendi fyrirspurn á Skúla Helgason, formann Skóla- og frístundaráðs og borgarfulltrúa Samfylkingarinnar. Sagðist hann ætla að „koma þeim á framfæri við starfsfólk borgarinnar.“ Hann neitaði þó fyrir að hafa reynt að hylma yfir nein mál. „Mál sem tengjast viðhaldi húsnæðis fara í ferli hjá umhverfis- og skipulagssviði og er leitað viðeigandi lausna í hverju tilviki,“ sagði Skúli jafnframt.
Samkvæmt heimildum DV hefur legið fyrir að minnsta kosti frá byrjun septembermánaðar að um myglu væri að ræða. Herma þær sömu heimildir að á foreldrafundi í gær hafi verið um það rætt að mögulegur sökudólgur væri skortur á drenlögnum umhverfis húsin tvö á Ægisborg.
Aðeins eru nokkrir mánuðir síðan öll lóð Ægisborgar var rifin upp og kostaði framkvæmdin öll nálægt eitt hundrað milljónum. Fól hún í sér jarðvegsframkvæmdir, endurnýjun yfirborðsefna og leiktæki, auk eftirlits með framkvæmdinni. Framkvæmdinni var skipt upp í tvo hluta. Lauk fyrri áfanga haustið 2019 og sá síðari haustið 2020. Samkvæmt útboðsgögnum fyrir fyrri hluta framkvæmdar, jarðvegsframkvæmd næst leikskólabyggingunum tveimur, er drenlögn ekki hluti af framkvæmdinni.
DV hafði enn fremur samband við Auði Ævarsdóttur, leikskólastjóra Ægisborgar, en hún vildi ekki tjá sig um málið. Hún sagði þó að fréttatilkynning um málið kæmi „á morgun eða hinn,“ og að allt væri í góðum málum á leikskólanum. Hún vildi ekki svara spurningum um hvað yrði um starfsfólk skólans, börn skólans eða hvort vitað væri hversu lengi skólinn yrði lokaður, að hluta eða í heild.
Ægisborg er ekki fyrsta tilfelli myglu til þess að valda skólastjórnendum í borginni höfuðverk á kjörtímabilinu, en meirihlutinn var gagnrýndur af nokkurri hörku fyrir framgöngu sína í máli Fossvogsskóla. Í fyrstu var reynt að þrífa burt mygluna, líkt og Fréttablaðið greindi frá á sínum tíma, en þrifin urðu aðeins til þess að hægja á útbreiðslu myglunnar í skólanum. Í kjölfar þess að „kolsvört“ skýrsla um raunverulegt ástand á húsi Fossvogsskóla kom út var afráðið að loka byggingunni og ráðast í nauðsynlegar framkvæmdir.