fbpx
Laugardagur 11.janúar 2025
Eyjan

Píratar neita að svara spurningum um bólusetningar – Halldóra tók upp hanskann fyrir foreldra óbólusettra barna

Heimir Hannesson
Mánudaginn 13. september 2021 19:00

Halldóra Mogensen á þingi. mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Píratar neita, allir sem einn að því er virðist, að svara spurningum DV um hvort þau hafi látið bólusetja sig fyrir Covid-19, og hvort þau hafi látið eða munu láta bólusetja börnin sín. Píratar hafa áður tekið upp hanskann fyrir efasemdarfólki um bólusetningar.

DV sendi fyrir helgi fyrirspurn á alla þingmenn þar sem spurt var hvort þeir hafi látið bólusetja sig fyrir Covid, látið bólusetja börnin sín, og hvort að þau hafi fengið Covid. Svar hefur nú borist frá meirihluta þingmanna. Píratar eru þeir einu sem hafa neitað að svara.

Hörð viðbrögð Þórhildar vakti athygli

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingkona Pírata, brást ókvæða við spurningum blaðamanns og vöktu viðbrögð hennar raunar athygli annarra fjölmiðla. Þórhildur tók spurningar blaðamanns og birti á Facebook síðu sinni. Sagði hún í svari sínu sem hún birti með færslunni, ekki ætla að svara spurningum DV efnislega. Vöktu hörð viðbrögð Þórhildar jafnframt upp spurningar um hvort Þórhildur væri að slá hlífðarskyldi yfir flokksfélaga vegna persónulegra skoðana þeirra um bólusetningar.

Helgi Hrafn er einn þeirra sem varði viðbrögð Þórhildar: „Það er algerlega út í hött að fjölmiðli detti það einu sinni til hugar að spyrja út í börnin okkar,“ sagði Helgi. „Og já, að sjálfsögðu segjum við fjölmiðlamönnum að það sé hörmuleg blaðamennska og siðlaust að ætlast til þess að stjórnmálafólk gefi upp heilsufarsupplýsingar um börnin sín.“

Bólusetningar áður verið steinn í skóm Halldóru og Pírata

Þetta er raunar ekki í fyrsta sinn sem Píratar vekja athygli vegna afstöðu sinna til bólusetninga og spurninga blaðamanna þar um. Árið 2015 sagði RUV frá því að Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, hefði gagnrýnt umræðuna í samfélaginu um bólusetningar barna í ræðu á Alþingi. Halldóra sagði þá sem ekki vilja láta bólusetja börnin sín hafa þurft að sitja undir hatrammri og einstrengingslegri umræðu og að þeir hafi verið úthrópaðir. „Mér er hugsað til Bandaríkjanna eftir 11. september 2001 þar sem ekki mátti gagnrýna valdstjórnina án þess að vera uppnefndur unamerican eða anti patriot,“ sagði Halldóra meðal annars í ræðu sinni.

Þórólfur Guðnason hafði nokkrum dögum fyrir ræðu Halldóru sagt það áhyggjuefni hve margir foreldrar hafi ekki látið bólusetja börnin sín fyrir algengum sjúkdómum á borð við stífkrampa, kíghósta, heilahimnubólgu og lömunarveiki.

Árið 2017 var Halldóra orðin formaður velferðarnefndar og af því tilefni voru orð hennar um bólusetningar barna þá rifjuð upp á samfélagsmiðlum. DV bar þá orð hennar úr ræðustól Alþingis undir hana. Halldóra svaraði: „Ég er ekkert á móti bólusetningum. Ég hélt ræðu á þingi sem gerði allt vitlaust og þá stimpluðu mig allir sem einhvern andstæðing bólusetninga, sem var hreinlega bara út af umræðunni.“

Í skriflegu svari við spurningum DV endurtekur Halldóra þessi orð nú, en segist þó vera á móti skyldubólusetningum barna og því að gera bólusetningu að skilyrði fyrir því að þiggja opinbera þjónustu, til dæmis leikskólavist fyrir börn. Hún er ekki fyrsti Píratinn til þess að taka þá stefnu. Árið 2018 lagði Hildur Björnsdóttir, borgarstjórnarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, fram tillögu um að bólusetningar barna yrði gert að skilyrði fyrir inntöku í leikskóla. Dóra Björt Guðjónsdóttir, borgarstjórnarfulltrúi Pírata, lagðist þá hart gegn hugmyndum Sjálfstæðismanna og sagði það myndi „jaðarsetja börn foreldra sem líklega vantar flesta bara réttar upplýsingar.“

Allir þingmenn sem svöruðu segjast fullbólusettir

Samkvæmt upplýsingum á Covid.is hafa nú 72% allra landsmanna verið bólusettir og 85% 12 ára og eldri. Gera má ráð fyrir að þessi hlutföll hækki nokkuð á næstunni þar sem um ellefu þúsund einstaklingar á aldrinum 12-15 ára eru nú hálfbólusettir, og verða því væntanlega fullbólusettir á næstu vikum.

Allir þingmenn sem svöruðu spurningum DV segjast fullbólusettir fyrir Covid-19.

Af þeim þingmönnum sem svöruðu fyrirspurninni sögðust 44% hafa fengið AstraZeneca bóluefnið, sem er töluvert hærra hlutfall en í landinu öllu, en 22,6% landsmanna fengu AstraZeneca.

Þá fengu 31% þingmanna Pfizer, en 55% í landinu öllu.

Aðeins 6% þingmanna fengu Janssen en 20% landsmanna.

Hlutfall þingmanna sem fékk Moderna (6%) er sambærilegt hlutfalli landsmanna (7,5%).

Þá sögðust 100% þeirra þingmanna sem svöruðu fyrirspurn DV hafa látið bólusetja börnin samkvæmt bólusetningaráætlun sóttvarnaryfirvalda. Kveður sú áætlun á um 9 bólusetningar frá 3 mánaða og að 14 ára. Bólusett er fyrir barnaveiki, stífkrampa, kíghósta, hemofílus influenzae b, mænusótt, pneumókokkum, miningókokkum C, hlaupabólu, mislingum, hettusótt, rauðum hundum og HPV.

Bættu nokkuð margir þingmenn því við að þeir fylgdu ráðleggingum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, og myndu gera áfram.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Segir nýja valdablokk í Sjálfstæðisflokknum vilja tafarlausar breytingar

Segir nýja valdablokk í Sjálfstæðisflokknum vilja tafarlausar breytingar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Össur fer mikinn í að greina átökin innan Sjálfstæðisflokksins – Segir að Þórdís Kolbrún hafi gert stór mistök sem muni reynast henni dýrkeypt

Össur fer mikinn í að greina átökin innan Sjálfstæðisflokksins – Segir að Þórdís Kolbrún hafi gert stór mistök sem muni reynast henni dýrkeypt