fbpx
Laugardagur 25.janúar 2025
Eyjan

Orðið á götunni: Píratar sigla staurblankir inn í kosningabaráttuna – „Opna bókhaldið“ ekki uppfært síðan í fyrra

Heimir Hannesson
Þriðjudaginn 7. september 2021 10:30

Ef marka má heimildir DV gætu Píratar þurft að grípa til gamalla bragða í fjáröflun. Til dæmis eins og þeir gerðu hér árið 2013 í Kolaportinu.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir að hafa fengið samtals 275 milljónir króna úr hendi hins opinbera í formi styrkja til stjórnmálahreyfinga sem eiga fulltrúa á Alþingi eru fjárhirslur Pírata, 19 dögum fyrir kosningar, tómar. Þetta herma heimildir DV. Þá er orðið á götunni að Píratar leiti nú að lánamöguleikum til þess að eiga fyrir kosningabaráttunni, sem þó er farin af stað og vel það hjá flestum stjórnmálaflokkum.

Fjárframlög hins opinbera til flokksins, samkvæmt vefsíðu Stjórnarráðsins, námu 71 milljón árin 2021 og 2020, 72,5 milljónum árið 2019 og 60,5 milljónum árið 2018.

Hafa margir haft á því orð að auglýsingar Pírata hafa varla sést og styðja gögn þá athugun. Hér að neðan má sjá samantekt yfir útgjöld stjórnmálaflokkanna í Facebook auglýsingar síðustu 30 dagana. Helst vekur athygli að Píratar, flokkur sem hefur meðal annars barist fyrir aukinni notkun Internetsins í stjórnsýslu og stjórnmálum, hefur eytt minnstu. Á toppi listans trónir Flokkur fólksins með Ingu Sæland í fararbroddi, eða um 800 þúsund krónum.

Engum spurningum svarað

DV hefur frá því á fimmtudag reynt að ná tali af Elsu Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Pírata, en án árangurs. Á fimmtudaginn svaraði hún blaðamanni: „Já, ég er á fundi núna. Um hvað er málið?“ Síðan henni var tjáð um hvað málið væri hafa fleiri svör ekki borist.

Þá hefur flokkurinn ekki skilað inn ársreikningi fyrir síðasta ár heldur. Samkvæmt ársreikningi 2019 voru einu tekjur flokksins umrædd fjárframlög hins opinbera. Rekstrargjöld flokksins fyrir árið 2019 voru 68,5 milljónir og sátu þannig eftir 2,5 milljónir. Stærsti útgjaldaliðurinn það árið var launakostnaður, eða um 41 milljón og „almennur rekstrarkostnaður,“ eða um 23 milljónir.

Samkvæmt þeim sama ársreikningi áttu Píratar rúma milljón inni á bankareikning í lok árs 2019.

Þekkt er að kosningabarátta stjórnmálaflokks geti kostað tugi milljóna. Kostaði kosningabarátta Pírata 2017 til dæmis 32 milljónir, auk þess sem flokkurinn styrkti aðildarfélög um aðrar 10 milljónir það ár, væntanlega vegna kosningaútgjalda.

Rykfallið bókhald

Á heimasíðu og í stefnu flokksins er opið bókhald flokksins boðað í nafni gagnsæis. Opna bókhald Pírata hefur þó ekki verið uppfært síðan í fyrra.

Athygli vekur þó að í áætlun fyrir árið 2021, sem nú er að sigla inn í sinn síðasta ársfjórðung, segir að gert sé ráð fyrir að tekjur aukist um átta milljónir á milli ára. Þá gerir áætlunin ráð fyrir útgjöldum að fjárhæð 95,5 milljónum. Áætlunin hljóðar þannig upp á 12 milljóna rekstrarhalla.

Hvernig flokkurinn ætlar að fylla upp í þetta gat á næstu 19 dögum er ekki vitað, enda náðist ekki, sem fyrr segir, í Elsu Kristjánsdóttur, framkvæmdastjóra Pírata.

Uppfært 13.45:

Í skriflegu svari við greininni segir Elsa Kristjánsdóttir að Píratar hafi sett sér það markmið að erlendur auglýsingakostnaður fari ekki yfir 25% af heildarauglýsingakostnaði. Þá segir hún flokkinn muni beita sér af meiri þunga á auglýsingamarkaði í síðari helming baráttunnar.

Þá segir hún ársreikning fyrir árið 2020 tilbúinn og að hann hafi verið kynntur á aðalfundi seint í ágúst. Hann hafi þó ekki enn verið birtur. Þá segir Elsa fjármálaáætlun fyrir árið 2021 muni standa að mestu og gerir hún ráð fyrir 10 milljóna halla.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar