fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Eyjan

Björn Jón Bragason: Afnemum styrkjakerfi í landbúnaði

Jón Þór Stefánsson
Sunnudaginn 5. september 2021 16:00

mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Jón Bragason skrifar…

Víðs vegar um heiminn má finna dæmi þess að sett séu lög sem hefta sókn til aukinna lífsgæða. Á fyrri hluta tuttugusta aldar var komið á víðtækri ríkisforsjá í íslensku atvinnulífi til að hamla breytingum sem voru óumflýjanlegar: að Ísland hyrfi frá því að verða dreifbýlt bændasamfélag og yrði iðnvætt borgarsamfélag. Að ýmsu leyti erum við enn föst í viðjum þessarar stefnu.

Pólitíkin snýst ekki um vinstri og hægri

Árið 1988 kom út hjá Menningarsjóði bókin Iðnbylting hugarfarsins eftir Ólaf Ásgeirsson sagnfræðing. Bókin vakti verðskuldaða athygli enda tókst höfundi með snilldarlegum hætti að varpa nýju ljósi á íslenska þjóðfélagsþróun tuttugustu aldar. Ólafur benti á í bók sinni að hugtökin hægri og vinstri villtu mönnum sýn í umræðu um þjóðfélagsmál. Meginátakalínur íslenskra stjórnmála hefðu verið milli þéttbýlis og sveitar. Í einum ritdómi sagði að bók Ólafs ætti það

„sameiginlegt með öðrum snilldarverkum að hún fær lesandann til að sjá í nýju ljósi fyrirbæri sem hann taldi sig þekkja … Vel má vera að fróðir menn sjái annmarka á einhverju sem þar er ritað og vafalaust mun þessi nýstárlega bók vekja deilur, en hún skrifuð af meiri snilld, hugmyndaauðgi og víðsýni en flestir íslenskir höfundar ráða yfir“

Ólafur lést langt um aldur fram árið 1990. Hann var einn af þessum fáu sagnfræðingum sem vildi rannsaka sagnfræðina samtímans vegna og bókin Iðnbylting hugarfarsins var mörgum opinberun — þarna birtist nýr skilningur á grundvallarþáttum í íslenskri þjóðfélagsþróun.

Draumórar

Jónas Jónsson frá Hriflu, stofnandi Framsóknarflokksins, var við nám í Ruskin College í Oxford veturinn 1908–1909 en stofnandi skólans var John Ruskin sem lagst hafði gegn verksmiðjuiðnaði og þéttbýlismyndun. Maðurinn skyldi fremur leita til náttúrunnar og yrkja jörðina. Við blasir að þarna er að finna þá hugmyndastefnu sem verður grundvöllur Framsóknarflokksins. En það voru ekki bara framsóknarmenn sem urðu fyrir áhrifum af þessum toga. Ólafur Friðriksson, einn frumkvöðla íslenskrar jafnaðarstefnu eða sósíalisma, virðist hafa verið undir áhrifum frá Peter Krapotkin sem var rússneskur fursti sem sett hafði fram hagfræðikenningar um gildi smáfyrirtækja og handverksmanna umfram stórfellda verksmiðjuframleiðslu.

Innblásnum af þessum hugmyndum tókst íslenskum stjórnmálamönnum að stöðva viðleitni til stórrekstrar í íslenskum landbúnaði en Korpúlfsstaðabúið sem reist var í Mosfellssveit á þriðja áratugnum var eitt fullkomnasta kúabú Norðurlanda. Reykjavík og aðrir kaupstaðir sættu hærri skattlagningu en sveitirnar og stórfelldu fjármagni var veitt frá þéttbýli til sveita. Margir sáu meinbugi þessa kerfis snemma — ekki bara kaupmenn í Reykjavík heldur líka sósíalistar. Halldór Laxness skrifaði árið 1945:

„Aflögufærir atvinnuvegir kaupstaðanna hafa verið skattlagðir í gríð og ergi svo hægt væri að útbýta peningum frá ríkinu til dvergvaxinna undirkapítaliséraðra og órentanlegra landbúnaðarfyrirtækja á strjálíngi út um öll foldarból,“

og Halldór bætti við:

„Almennt lifa bændur vorir og hrærast í draumórum hins forna villimannabúskapar, rányrkjunnar, ímynda sér að það sé landbúnaður að heil fjölskylda snúist mestalt árið kríngum fáeinar kindur eða berji þúfur með amboðum“.

„Móðgun við íslensku bændastéttina“

Kjördæmaskipanin og misvægi atkvæða hefur viðhaldið þessu kerfi sem er hvorki til hagsbóta fyrir bændur né neytendur. Stór hluti bænda er enn fastur í fátæktargildru og almenningur býr við lakara vöruúrval en ef ekki væri fyrir tollvernd íslensks landbúnaðar.

Ef við hverfum aldarfjórðung aftur í tímann þá var mun harðar tekist á um þessi mál þar sem Alþýðuflokkurinn, einn fjögurra höfuðflokka þess tíma, sótti fylgi sitt nær eingöngu til nokkurra þéttbýlisstaða. Flokkurinn boðaði róttækar breytingar á landbúnaðarkerfinu og rökstuddi með rækilegum hætti eins og einn ungur jafnaðarmaður orðaði það í blaðagrein árið 1995:

„Það liggur … í augum uppi að þeir sem vilja halda lífinu í þessu hafta- og óhagkvæmisskrímsli eru ekki neinir vinir bænda og það sem meira er; þetta kerfi er ekkert annað en móðgun við íslensku bændastéttina vegna þess að það virðist ganga út á það að bændum sé ekki treystandi til að taka eina né neina ákvörðun um hvernig þeir telja best að haga sínum rekstri.“

Í þessu sambandi var gjarnan bent á þá umskiptingu sem varð í nýsjálenskum landbúnaði í byrjun níunda áratugarins. Þá var Verkamannaflokkurinn kominn til valda en hann naut langmest fylgis í þéttbýlinu. Á þremur árum voru allar niðurgreiðslur til landbúnaðar afnumdar. Vitaskuld hafði þetta í för með sér mikið tekjutap fyrir bændur og var ekki sársaukalaust en aðlögunin gekk hratt fyrir sig og landbúnaðurinn rétti aftur úr kútnum á nýjum forsendum sem nútímaleg framsækin atvinnugrein — án afskipta hins opinbera.

Frá því að Alþýðuflokkurinn leið undir lok hafa djarflegar hugmyndir í þessu efni að mestu hljóðnað. Til að gæta allrar sanngirni þá má benda á að Viðreisn hefur gagnrýnt kerfið en þar er ekki gengið lengra en svo að í stefnuskrá segir að flokkurinn leggi „áherslu á að endurskoða styrkjakerfi landbúnaðarins til að efla greinina og gera hana sjálfbærari“. Gott og vel. En hvers vegna ætti nokkur atvinnuvegur að búa við styrkjakerfi yfir höfuð? Hvers vegna má ekki bara ekki afnema styrkjakerfi landbúnaðarins og alla framleiðslustýringu og treysta bændum sjálfum fullkomlega fyrir eigin rekstri líkt og gildir í öðrum atvinnugreinum? Þorir enginn stjórnmálamaður lengur að umbylta því hugarfari sem er við lýði í þessum málaflokki?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Inga Sæland: Ekki kjörin til að bjarga heiminum – björgum Íslendingum fyrst

Inga Sæland: Ekki kjörin til að bjarga heiminum – björgum Íslendingum fyrst
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 3 um ESB/evru: Noregur vill inn – Tyrkir hafa hangið á húninum frá 1987!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 3 um ESB/evru: Noregur vill inn – Tyrkir hafa hangið á húninum frá 1987!