fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Biden boðar nýja tíma í utanríkismálum Bandaríkjanna í kjölfar brotthvarfsins frá Afganistan

Kristján Kristjánsson
Miðvikudaginn 1. september 2021 06:59

Joe Biden ávarpaði bandarísku þjóðina í gær. Mynd:EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Joe Biden, Bandaríkjaforseti, ávarpaði þjóð sína í gærkvöldi, tæpum sólarhring eftir að síðasti bandaríski hermaðurinn yfirgaf Afganistan. Hann sagðist taka fulla ábyrgð á blóðugu og á köflum óskipulögðu brotthvarfi hersins frá Afganistan og sagði að brotthvarfið eigi að marka nýja tíma í utanríkisstefnu Bandaríkjanna þar sem minna verði treyst á hernaðarmátt.

Biden fagnaði brottflutningi 124.000 óbreyttra borgara frá Afganistan á þeim 17 dögum sem liðu frá falli Kabúl þar til bandarískir hermenn yfirgáfu flugvöllinn í borginni. Hann sagði að nú væri tími til kominn að snúa við blaðinu og draga úr hernaðarafskiptum Bandaríkjanna af málum í öðrum ríkjum.

„Þessi ákvörðun um Afganistan snýst ekki bara um Afganistan. Hún snýst um að enda tímabil umfangsmikilla hernaðaraðgerða til að endurskapa önnur ríki,“ sagði hann.

Biden viðurkenndi að stjórn hans hefði ekki séð fyrir hversu hratt afganski herinn myndi hrynja til grunna en benti um leið á að mörgum öðrum en honum væri einnig um að kenna og benti þar sérstaklega á forvera sinn í embætti, Donald Trump, og Ashraf Ghani, fyrrum forseta Afganistan.

Hann benti á að hann hefði fengið Doha-samninginn í arf frá Donald Trump og stjórn hans. Sá samningur var gerður við Talibana fyrir um ári síðan en í honum var kveðið á um að brotthvarf Bandaríkjahers frá Afganistan væri ekki háð neinum skilyrðum um pólitískar sættir í Afganistan og einnig kvað hann á um lausn 5.000 Talibana úr fangelsi. Biden sagði að meðal þessara fanga hafi verið „nokkrir af helstu hershöfðingjum Talibana, þar á meðal þeir sem hafa nú tekið völdin í Afganistan.“

„Þegar ég tók við embætti var hernaðarleg staða Talibana sú sterkasta frá 2001, þeir réðu yfir tæplega helmingi landsins. Við stóðum því frammi fyrir einföldum valkosti: Annaðhvort að fylgja þeim samningi sem síðasta ríkisstjórn gerði um að yfirgefa Afganistan eða segja að við værum ekki á förum og senda þar með tugi þúsunda hermanna í stríð á nýjan leik. Ég ætlaði ekki að framlengja þetta endalausa stríð,“ sagði hann.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt