Fréttablaðið skýrir frá þessu. „Þetta er mikið framlag í loftslagsmálum og leysir af hólmi gríðarlega losun á CO2-ígildum,“ er haft eftir Tryggva Þór Herbertssyni, stjórnarformanni Qair á Íslandi.
Hann sagði að hugmyndin væri að hefja vetnisframleiðslu á Grundartanga ef tilskilin leyfi fást og að rafmagnið sem notað verður komi frá vindmyllugörðum sem fyrirtækið er að þróa. Vetni, sem ekki verður notað hér á landi, verður breytt í ammoníak og flutt þannig úr landi.
Fyrirtækið hefur í hyggju að reisa vindmyllugarða í landi Sólheima á Laxárdalsheiði í Dalasýslu og í Múla ofan Borgarfjarðar að sögn Tryggva. Verður rafmagnið flutt um dreifikerfi Landsnets. Einnig þarf fyrirtækið að kaupa grunnorku af öðrum raforkuframleiðendum eða um 30% af orkuþörfinni.
Reiknað er með að 270 manns vinni í verksmiðjunni þegar hún verður komin í fullan gang. Tryggi sagði að engin umhverfisáhrif verði af verksmiðjunni utan áhrifa af mannvirkjunum sjálfum. „Það eina sem fer út í loftið er súrefni,“ sagði hann.