Laust eftir hádegi miðvikudaginn 20. desember 2017 var ég á gangi í Borgartúni þegar mér barst símtal frá manni sem kynnti sig sem fyrrverandi rannsóknarlögreglumann. Hann kvaðst vilja fá mig til fundar við sig og Harald Johannessen ríkislögreglustjóra ásamt þriðja manni á skrifstofu ríkislögreglustjóra 3. janúar 2018 til að ræða um tiltekinn fund sem átti sér stað í innanríkisráðuneytinu nokkrum árum fyrr og ég hafði sagt frá í bók minni Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits? sem kom út síðla árs 2016 — eða ári fyrr.
Efni umrædds fundar sem segir frá í bókinni var meðal annars staða og framtíð efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra í ljósi þess að flestir starfsmenn hennar voru þá farnir yfir til embættis sérstaks saksóknara. Valtýr Sigurðurson, fyrrv. ríkissaksóknari, sem sat fundinn, segir svo frá í bók minni að á fundinum hafi verið fjallað um afdrif þeirra mála sem voru til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeildinni og þar bar á góma svokallað Asertamál. (Síðar átti Valtýr (og raunar annar maður sem sat fundinn sömuleiðis) eftir að staðfesta frásögn sína eiðsvarnir fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur.) En í bókinni kemur fram — samkvæmt frásögn Valtýs — að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri hafi á fundinum sagt það líta illa út fyrir sitt embætti ef Asertamálið yrði fellt niður og taldi hann öll tormerki á að gera það. Valtýr kvaðst hafa brugðist illa við við þessari afstöðu ríkislögreglustjóra sem vonlegt var.
Svo fór að ég afréð að mæta ekki á fundinn með ríkislögeglustjóra en að mati lögmanns míns var í hæsta máta óeðlilegt að stilla upp fundi af þessu tagi rétt eftir jól og boða menn rétt fyrir jól — um væri að ræða einhvers konar „terroriseringu“ — verið væri að skapa ótta á helgasta tíma ársins. Ég lét umræddan fyrrverandi rannsóknarlögreglumann vita af því símleiðis að ég hygðist afþakka boð á fundinn. Bað hann því næst vel að lifa og óskaði honum gleðilegra jóla.
Tæpri hálfri klukkustund síðar hringir til mín Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri. Hann bar sig heldur aumlega og spurði hvort ég vildi ekki hitta sig í létt spjall. Hann kvaðst fara með friði og ekki vera ógnandi á nokkurn hátt. Ég ítrekaði að ég vildi ekki ræða þetta mál frekar. Meira en ár væri liðið frá því að bókin hefði komið út og ég hygðist ekki skrifa meira um það. Í rauninni kæmi mér þetta ekki við og réttast að hann ræddi málið við Valtý sjálfan.
Svona gekk þetta samtal fram og til baka í nokkrar mínútur. Haraldur varð stöðugt ágengari en ég áréttaði að ef honum mislíkaði frásögn Valtýs yrði hann að eiga það við Valtý. Þá hótaði Haraldur skyndilega að stefna mér fyrir meiðyrði þar sem að í frásögn minni fælist „ólögmæt meingerð“ gegn sér. Ég benti honum á að ummælin væru ekki mín og ég yrði eðli máls samkvæmt ekki gerður ábyrgur fyrir þeim. Haraldur hélt hinu gagnstæða fram með miklum þjósti. Samtalið hálfpartinn fjaraði út eftir þetta.
Segir ekki meira af þessu máli fyrr en mér barst bréf með ábyrgðarpósti dagsett 2. mars 2018, ritað á bréfsefni ríkislögreglustjóra og undirritað af Haraldi Johannessen ríkislögreglustjóra, en líka tveimur öðrum sem titlaðir voru „fv. saksóknari efnahagsbrotadeildar“ og „fv. yfirlögregluþjónn“. Í bréfinu héldu þau þremenningar því fram að umrædd frásögn í bókinni væri „markleysa“ og að ég bæri „ábyrgð á ólögmætri meingerð“ gegn sér.
Öllum lögfróðum mönnum mátti ljóst vera að ég gat ekki borið ábyrgð á frásögn Valtýs Sigurðssonar (vísa má til fjölda dóma Mannréttindadómstólsins í þessu sambandi) og í hæsta máta óviðeigandi að embætti ríkislögreglustjóra væri misnotað með þessum hætti — enda málið alls óviðkomandi embættinu. Þarna hafði æðsti yfirmaður löggæslu í landinu sett mál í lögreglubúning — mál sem hafði ekkert með lögreglu að gera. Með þessu var aukinheldur vegið að tjáningarfrelsi mínu sem fræðimanns sem nýtur verndar 73. gr. stjórnarskrár og 10. gr. mannréttindasáttmála Evrópu þar sem segir:
„Sérhver maður á rétt til tjáningarfrelsis. Sá réttur skal einnig ná yfir frelsi til að hafa skoðanir, taka við og skila áfram upplýsingum og hugmyndum heima og erlendis án afskipta stjórnvalda.“
Ég kvartaði formlega til umboðsmanns Alþingis vegna þessa hátternis ríkislögreglustjóra og til að gera langa sögu stutta skilaði umboðsmaður loks áliti fyrr á þessu ári þar sem hann átaldi framferði ríkislögreglustjóra harðlega en sömuleiðis ráðuneyti dómsmála sem hefði borið að beita þeim eftirlits- og yfirstjórnunarheimildum sem það hefði gagnvart ríkislögreglustjóra — það hefði ráðuneytið til dæmis geta gert með áminningu en gerði ekki. Umboðsmaður lagði að dómsmálaráðuneytinu að rétta hlut minn og fór ég þess á leit við ráðuneytið að þeim tilmælum yrði hlýtt.
Mér var eðlilega létt á fimmtudaginn var þegar ráðherra dómsmála boðaði mig á sinn fund og afhenti mér formlega afsökunarbeiðni ráðuneytisins þar sem m.a. kemur fram að ráðuneytið vilji gjarnan læra af þessu máli og því heitið að tekið verði með öðrum hætti á málum af þessu tagi eftirleiðis komi þau upp.
Þessi niðurstaða málsins er mikið fagnaðarefni en verulega hefur skort á fram að þessu að opinberar stofnanir og embættismenn játi mistök og biðjist afsökunar á þeim. Þvert á móti hendir það ítrekað að embættismenn rembist við að réttlæta eigin misgjörðir. Ég vona einlæglega að þessi afgreiðsla málsins megi horfa til varnaðar þannig að embættismenn fari gætilegar með þær valdheimildir sem þeim eru búnar.
Ég afréð að gefa þessum pistli sama nafn og pistli sem ég ritaði fyrr á þessu ári og birtist hér á vef DV — enda fjallaði sá pistill um valdníðslu gjaldeyriseftirlits Seðlabankans sem bókin mín hafði fjallað um.
Sakborningar í Asertamálinu sem ég nefndi hér að framan hafa aldrei fengið afsökunarbeiðni frá Seðlabanka Íslands eða nokkru öðru embætti. Þeir sátu á sakamannabekk í meira en sex ár. Angar málsins voru teknir fyrir ellefu sinnum fyrir dómstólum hér á landi og í Svíþjóð og þeir á endanum sýknaðir — enda blasti við frá upphafi að gjaldeyriseftirlit Seðlabankans hafði farið offari. Málið olli þeim fjórmenningum að vonum miska og miklu fjárhagstjóni. Eignir þeirra voru kyrsettar um árabil. Í tilfelli eins sakborninganna, Markúsar Mána Mikaelssonar, var um að ræða þrjá fjórðu hluta starfsævi hans. Enginn embættismaður hefur axlað ábyrgð á þeirri hörmulegu meðferð sem þeir fjórmenningar máttu sæta. Enginn.
Því miður er alltof algengt hér á landi að misgjörðir embættismanna — jafnvel hrein og klár valdníðsla — hafi engar afleiðingar og brotlegir embættismenn fái jafnvel framgang í starfi. Í nágrannalöndum okkar er öðruvísi farið að. Skemmst er að minnast rannsóknar Serious Fraud Office í Bretlandi á málum tengdum Kaupþingi. Svo fór að yfirmaður rannsóknarinnar sagði af sér og hlutaðeigandi voru beðnir afsökunar á málsmeðferðinni enda enginn fótur fyrir þeim ásökunum sem hafðar voru uppi.
Ef embættismenn misbeita valdi sínu þarf almenningur að eiga úrræði til að leita réttar síns og slík úrræði geta ekki horft til varnaðar nema viðkomandi embættismenn játi mistök og eftir atvikum axli ábyrgð með afsögn. Mjór er mikils vísir og vonandi er afsökunarbeiðni dómsmálaráðherra í vikunni sem leið merki þess að brátt renni upp nýir tímar þar sem tekið verði hart á hvers kyns valdníðslu og réttaröryggi borgaranna styrkt til muna.