fbpx
Sunnudagur 26.janúar 2025
Eyjan

Festi skráir fyrsta kolefnisbindingarverkefnið í Loftslagsskrá

Eyjan
Föstudaginn 27. ágúst 2021 11:01

Forsvarsmenn Festi, Skógræktarinnar og Loftslagsskrár Íslands við undirritun samnings á starfstöð rannsóknasviðs Skógræktarinnar á Mógilsá í Kollafirði

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Festi hf. mun fyrst allra fyrirtækja á Íslandi skrá kolefnisbindingu sína í Lofslagsskrá Íslands samkvæmt kröfum Skógarkolefnis sem Skógræktin hefur verið með í þróun. Þar með hafa orðið tímamót í ábyrgri kolefnisjöfnun og kolefnisskráningu á Íslandi í samræmi við álit Loftslagsráðs frá nóvember síðastliðnum. Festi skrifaði á dögunum undir verksamning við Loftslagsskrá Íslands og Skógræktina sem mun aðstoða Festi við innleiðingu verkefnisins. Verkefnið verður staðfest og vottað af óháðum aðila og hefur nú þegar verið forskráð í Loftslagsskrá. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem send var á fjölmiðla.

Í tilkynningunni kemur fram að áætlað sé að yfir hálf milljón trjáplantna verði gróðursett með nýskógrækt í þessu fyrsta verkefni á næstu þremur árum. Sömuleiðis er gert ráð fyrir að á næstu 50 árum muni kolefnisbinding Festi nema um 90.000 tonnum af CO2 sem er meira en öll væntanleg losun vegna starfsemi Festi og rekstrarfélaga á sama tímabili. Gróðursett verður á 250 hektara landi í eigu Festi við Fjarðarhorn í Hrútafirði og hefst gróðursetningin vorið 2022. Festi hefur einnig áform um frekari gróðursetningu og loftslagsverkefni á fleiri landsvæðum vítt og breitt um landið á næstu árum.

Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands, Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi og Þröstur Eysteinsson skógræktarstjóri við undirritun verksamnings sem fór nýverið fram á starfstöð rannsóknasviðs Skógræktarinnar á Mógilsá í Kollafirði.

 

„Á sama tíma og Festi og rekstrarfélögin N1, Krónan, Elko og Bakkinn vinna áfram að því að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda í rekstri sínum, er kolefnisbindingarverkefnið okkar leið til að stuðla að ábyrgri kolefnisjöfnun. Til þess verður notast við ferla sem tryggja rekjanleika, trúverðugleika og gagnsæi í loftslagsaðgerðum okkar sem eru í takt við alþjóðlegar kröfur. Líkt og nýútkomin loftslagsskýrsla Sameinuðu þjóðanna sýnir er þörf á róttækum aðgerðum strax í dag, bæði til að draga úr losun og ná jafnvægi í losun og bindingu. Ég tel að þetta skref sé afar metnaðarfullt og vona að háleit markmið Festi og rekstrarfélaga verði öðrum fyrirtækjum og stofnunum hvatning til að gera betur í þessum efnum,“ segir Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi.

 

Með verkefninu vill Festi kolefnisjafna með ábyrgum hætti alla losun félaga innan samstæðunnar sem ekki er hægt að fyrirbyggja. Þar með vill félagið fara ábyrgari leið í mótvægisaðgerðum en hafa verið í boði hingað til hér á landi og efla þannig gildi og trúverðugleika kolefnisjöfnunar. Verkefnið er einnig í takt við stefnu félaga Festi um samfélagsábyrgð og fylgir þeim Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem félögin hafa sett sér.

 

Vottuð kolefnisjöfnun í fyrsta sinn á Íslandi

Gæðakerfið Skógarkolefni hefur verið í vinnslu í nokkur ár og byggir á grunni breskrar aðferðafræði sem snýr að loftslagsverkefnum með nýskógrækt.

„Nú er loksins í boði vottuð kolefnisjöfnun á Íslandi og óskum við Festi til hamingju með fyrstu skrefin. Til að tryggja rekjanleika og gagnsæi mun óháð vottunarstofa sjá um að staðfesta að farið sé í einu og öllu eftir gæðakerfinu. Þegar binding verður raunveruleg og nýta á árangurinn til kolefnisjöfnunar verður það gert með afskráningu kolefniseininga í Loftslagsskrá. Það er einnig afar ánægjulegt að við hjá Skógræktinni höfum fundið fyrir auknum áhuga á vottaðri kolefnisjöfnun meðal íslenskra og erlendra fyrirtækja sem sjá hag sinn í því að kolefnisjafna rekstur sinn með nýskógrækt hér á landi og er Skógarkolefni okkar svar við því ákalli,“ segir Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri.

 

Mikill áhugi á arðbærum loftslagsverkefnum

Loftslagsskrá er miðlægur gagnagrunnur sem stuðlar að nýsköpun í lausnum sem ætlað er að takast á við loftslagsvandann og hefur Skógræktin falið Loftslagsskrá að sjá um skráningu á Skógarkolefniseiningum.

„Það er góðs viti að fyrsta kolefnisbindingarverkefnið sem unnið er í takt við alþjóðlegar kröfur sé komið af stað hér á landi og að Festi sjái hag sinn í því að taka af skarið í loftslagsmálum á eins stórum skala og raun ber vitni. Við höfum unnið að undirbúningi skrárinnar í um tvö ár í samvinnu við ástralska og breska aðila og það er því mikið fagnaðarefni að geta nú skráð fyrsta verkefnið í Loftslagsskrá. Skráin er forsenda ábyrgrar kolefnisjöfnunar og líklega einn mikilvægasti innviðurinn til þess að hér á landi verði til raunveruleg loftslagsverkefni sem nýta kolefnismarkaði til fjármögnunar aðgerða í loftslagsmálum. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga hjá fyrirtækjum og fjárfestum sem vilja ráðast í arðbær og ábyrg loftslagsverkefni og sjá því gríðarleg tækifæri í kolefnismörkuðum,“ segir Guðmundur Sigbergsson, framkvæmdastjóri Loftslagsskrár Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar

Kristrún Frostadóttir: Atburðir úti í heimi hafa áhrif á ESB ferlið á Íslandi – geta breytt valmöguleikum okkar
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Halla búin að senda Trump heillaóskir

Halla búin að senda Trump heillaóskir
Eyjan
Fyrir 1 viku

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona

Haraldur Ólafsson skrifar: Nei, Thomas, þetta er ekki svona
Eyjan
Fyrir 1 viku

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar

Kristrún Frostadóttir: Dagur getur blómstrað í þingflokki Samfylkingarinnar