Afkoma ríkissjóðs fyrstu sex mánuði ársins er 27 milljörðum króna betra en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu um nýbirt hálfsársuppgjör Fjársýslunnar.
Efnahagsbati hefur farið umfram væntingar og segir ráðuneytið að hann birtist skýrt í því að atvinnuleysi nálgist hratt það stig sem það var á fyrir heimsfaraldurinn.
„Kannanir meðal fyrirtækja benda til þess að lausum störfum hafi fjölgað til muna. Gefur það fyrirheit um að atvinnuleysi kunni að minnka enn frekar. Ferðamönnum hefur fjölgað hratt í sumar. Vísbendingar eru um hraðan vöxt einkaneyslunnar og að hún sé nú orðin meiri en áður en faraldurinn skall á. Þá eru heimilin nú orðin jafn bjartsýn á efnahagshorfur eins og þau voru þegar best lét 2016-2017 samkvæmt væntingavísitölu Gallup og vísbendingar um atvinnuvegafjárfestingu benda til mikils vaxtar,“ segir í tilkynningu.
Þrátt fyrir þetta var halli á rekstri ríkissjóðs engu að síður 119 milljarðar fyrstu sex mánuði ársins sem er svipað og í fyrra.
Tekjur ríkissjóðs voru 57,8 milljörðum meiri á fyrri helmingi ársins samanborið við sama tímabil á síðasta ári. Að sama bragði hafi gjöld á tímabilinu verið lítillega hærri en áætlað var, en það skýrist einkum af aðgerðum til að mæta áhrifum COVID-19.
Hins vegar er tekið fram að verulega óvissa ríki enn sem áður um efnahagsframvinduna næstu misseri.
Hér má lesa tilkynningu ráðuneytisins sem fer ítarlega yfir uppgjörið