Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að frá árinu 2000 til 2020 hafi fólki 70 ára og eldra fjölgað um 58% en á sama tíma hafi landsmönnum fjölgað um 30%. Árið 2000 voru 70 ára og eldri 22.526 en á síðasta ári voru 35.492 í þessum hópi.
Fréttablaðið hefur eftir Helga Péturssyni, formanni Landssambands eldri borgara, að það hafi lengi legið fyrir að þetta yrði svona. „Menn bjuggu sig ekki undir þetta. Það er sameiginlegt verkefni kynslóðanna að koma í veg fyrir að eldri kynslóðin leggist upp á þá yngri,“ sagði hann.
Mest fjölgaði í hópi 80 ára og eldri og 90 ára og eldri. Árið 2000 voru 7.471 í hópi 80 ára og eldri en 2020 voru þeir 12.602 eða 69% fjölgun. 1.137 voru 90 ára eða eldri árið 2000 en voru 2.310 á síðasta ári en það er 103% fjölgun.