Ég kenni nemendum mínum í stjórnskipunarrétti að stjórnmálaflokkar gegni lykilhlutverki sem helstu gerendur í stjórnmálakerfi lýðræðisríkja þó svo að þeir hafi ekki skilgreind verkefni við meðferð ríkisvalds. Stjórnmálaflokkar eru frjáls félagasamtök sem lúta ekki formbundnum eða lögákveðnum skilyrðum en tilvist stjórnmálaflokka — sem starfa þá án afskipta ríkisvaldsins — er ein meginforsenda lýðræðislegra stjórnarhátta. Þeir eru helsti vettvangur pólitískrar þátttöku borgaranna, vinna að samþættingu hagsmuna í þjóðfélaginu í heildstæða stefnu, þjálfa flokksfólk í málefnastarfi og gera það hæft til pólitískrar forystu. Og þannig verði til kostir fyrir kjósendur til að velja úr þegar gengið er að kjörborði.
Varnaðarorð Styrmis
Gott og vel. Allt eru þetta viðtekin sannindi enda skólabókardæmi (í orðsins fyllstu merkingu) um tilgang stjórnmálaflokka. Ég hef þó áhyggjur af því að þetta fyrirkomulag sé á ýmsan hátt að rakna upp. Fleiri hafa haft uppi sömu áhyggjur. Þeirra á meðal Styrmir Gunnarsson ritstjóri sem andaðist á föstudaginn var. Allt fram í andlátið ritaði hann vikulega pistla um stjórnmál og önnur þjóðfélagsmál en í pistli sem birtist 7. ágúst sl. viðraði hann áhyggjur sínar af þeirri hættu sem lýðræðislegum stjórnarháttum stafaði af skipulagsleysi stjórnmálaflokkanna. Hér kæmi tvennt til, annars vegar nýir flokkar sem ekki stæðu undir nafni og hins vegar vegna þess að gömlu flokkarnir hefðu staðnað.
Ég hygg að þetta hafi verið hárrétt ályktun hjá Styrmi: Flestir flokkanna eru fámennisklíkur með ólýðræðislega stjórnunarhætti og gömlu flokkarnir — sem áður státuðu sig af því að vera fjöldahreyfingar — eru trénaðir. Styrmir sagði flokkana ekki hafa tekist að laga sig að nýju samfélagi og að forystumenn þeirra óttuðust beinlínis nýbreytni. Hann nefndi dæmi um það hvernig grundvallarspurningar væru ekki á dagskrá flokkanna. Guðjón Brjánsson, þingmaður Samfylkingar, hefði viðraði áhyggjur sínar af því fyrr í sumar að Samfylkingin væri ekki á réttri leið í sinni pólitík. Slíkar spurningar fengjust þó ekki ræddar á opnum fundum flokksmanna að mati Styrmis og sömu sögu væri að segja um Sjálfstæðisflokkinn: menn veigruðu sér við að ræða stóru málin fyrir opnum tjöldum. VG myndi heldur ekki efna til fundar þar sem rætt yrði hvers vegna yfirgnæfandi meirihluti kjósenda flokksins vildi ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn.
Ég nefndi hér að framan að stjórnmálaflokkar gegndu lykilhlutverki sem helstu gerendur í stjórnmálakerfum lýðræðisríkja og til þess að þeir geti rækt þetta hlutverk sitt þurfa ágreiningsmenn innan þeirra raða að geta óhindrað rætt hugmyndir sínar opinskátt og komist að niðurstöðu. Kannski er þessi skortur á opnum skoðanaskiptum dæmi um það sem í okkar samtíma er kallað „rétthugsun“ eða „rétttrúnaður“ sem verður til þess að greinda menn — en hugdeiga — skortir einfaldlega kjark til að fylgja eftir djarflegum, þróttmiklum og sjálfstæðum hugmyndum vegna þess að þær stangast á við ríkjandi viðhorf.
Innan stjórnmálaflokka þurfa andstæðar skoðanir að njóta fulls jafnréttis, önnur vogarskálinn rís en hin fellur eða eins og John Stuart Mill orðaði það: „Hugsanafrelsi og málfrelsi eru ófrávíkjanleg skilyrði andlegrar velferðar mannkynsins og önnur velferð byggist á þeirri andlegu.“
Hverfum frá ríkisvæðingu stjórnmálanna
Rót vandans kann að liggja í ríkisstyrkjum til stjórnmálaflokka. Þeir eru tiltölulega nýlegt fyrirbrigði í lýðræðisríkjum en hafa vaxið hratt. Flokkarnir hafa samhliða hækkandi ríkisstyrk rofið lífræn tengsl við samfélagið — og trénað. Umræðan um þessi mál hefur einkum snúist um krónur og aura en framlög sjálfboðaliða í formi þátttöku í vinnu við framgang hugsjóna hefur nánast horfið samhliða því sem flokkakerfið hefur verið ríkisvætt.
Ég nefndi líka að framan einn hluta skólabókarskilgreiningarinnar á stjórnmálaflokki: að þeir væru frjáls félagasamtök. Hvernig í ósköpunum er hægt að tala um „frjáls“ samtök þegar ríkissjóður greiðir allan kostnaðinn af starfseminni? Það er grundvallaratriði að stjórnmálaflokkarnir séu utan við hið opinbera kerfi — enda hlutverk þeirra að veita kerfinu aðhald, breyta því og bæta það svo það geti þjónað almenningi sem best en flokkarnir sjálfir eru ekki „almannaþjónusta“ í neinum skilningi.
Styrmir heitinn gekk svo langt í pistli sínum sem birtist 7. ágúst sl. að segja lýðræðið ekki virka þar sem flokkarnir virkuðu ekki. Stjórnvöld byggðu orðið alfarið á hugmyndum frá litum hópi þingmanna — en ekki síður embættismanna og hagsmunaaðila. Nýjar hugmyndir yrðu ekki til innan flokkanna því frjálsar og opnar umræður ættu sér ekki stað. Áhrifamestu flokkarnir væru hagsmunaöflin og embættismannaflokkurinn og Styrmir skrifaði:
„Þessu verður að breyta og sú breyting verður að byrja í flokkunum sjálfum. Forystusveitir þeirra þurfa að hafa frumkvæðið. Vandinn er hins vegar sá að yfirleitt er flokkunum stjórnað af litlum klíkum sem hugsa mest um sjálfa sig. Ef það kemur í ljós að klíkuveldið kemur í veg fyrir þá lýðræðislegu byltingu sem þarf að verða í flokkunum er ekki um annað að ræða en að almennir flokksmenn beiti því valdi sem þeir hafa en nota sjaldan. Ef það gerðist færu margir máttarstólpar að nötra og hefðu ástæðu til. Í stuttu máli þarf að verða hér lýðræðisbylting.“
Ég ætla að taka undir þetta og bæta við þeirri tillögu að flokkarnir fari af fjárlögum. Það yrði fyrirtaks upptaktur lýðræðisbyltingar.