Á dögunum birtist grein á Vísi eftir Oktavíu Hrund Jónsdóttur, frambjóðanda Pírata, um vændi á Íslandi. Þar sagði hún Íslendinga hafa brugðist einstaklingum í kynlífsvinnu og kallaði eftir breytingum í þeim málaflokki.
Brynhildur Björnsdóttir, frambjóðandi Vinstri grænna til Alþingiskosninga, birti grein á Vísi í dag þar sem hún svarar Oktavíu. Brynhildur er ekki á sama máli og Oktavía og vill útrýma vændi á Íslandi.
Oktavía notaði skýrslu frá Frontline Defenders sem heimild í skrifum sínum en Brynhildur segir að skýrslan eigi ekki við um Ísland.
„Vandséð er hvernig þessi skýrsla talar við íslenskan raunveruleika þar sem aktivistar gegn vændi hafa náð umtalsverðum árangri í einmitt þessum málaflokkum. Oktavía heldur því fram að við sem þjóð höfum gjörsamlega brugðist fólki í vændi á Íslandi. Ég er henni ósammála þó betur megi að sjálfsögðu gera. Við höfum gert vændiskaup ólögleg á meðan vændissala er lögleg sem veitir fólki í vændi örlitla yfirhönd í samskiptum við kaupendur en aðalávinningurinn af þessari lagasetningu er þó sá að draga úr eftirspurn,“ segir Brynhildur og segir að kaupandinn sé vandamálið, ekki ríkið eða seljandinn. „Vandamálið við vændi er eftirspurnin og til að tryggja mannréttindi fólks í vændi er besta ráðið að stemma stigu við henni og veita þeim sem grípa til þeirra örþrifaráða að selja aðgang að líkama sínum aðra valkosti og stuðning.“
Brynhildur segir að þó svo að hún tali ekki fyrir lögleiðingu vændis styðji hún yfirráð yfir eigin líkama. Hún segir hins vegar að yfirgnæfandi meirihluti fólks sem stundar vændi geri það af einhvers konar nauðung vegna félagslegra aðstæðna eða vegna þess að það sæti mansali eða annarri þvingun.
„Að auki hefur normalísering á og aukinn sýnileiki á vændi sem hverri annarri neysluvöru bein og skaðleg samfélagsleg áhrif, þar sem slíkt viðheldur og ýtir undir staðalímyndir um kynin og hlutgervingu (þá einkum kvenna) og hægir á samfélagslegum breytingum sem stuðla að auknu jafnrétti kynjanna. Vændi er því bæði samfélagsmein og veldur meirihluta þeirra sem það stunda miklum og varanlegum skaða og hagsmunir þeirra fáu sem kjósa að stunda vændi geta einfaldlega ekki talist vega þar upp á móti,“ segir Brynhildur.
Hún segir að stefna Vinstri grænna í vændismálum sé skýr en í stefnuskrá flokksins um kvenfrelsi segir: „Líkami manneskju má aldrei vera söluvara. Mikilvægt er að standa með banni við kaupum á vændi og efla bæði viðbrögð og frumkvæði lögreglu og dómstóla við brotum á þeim lögum.“
„Mikilvægt er að styðja við fólk til að losna úr vændi, auka og efla fræðslu um vændi og áhrif þess á þau sem það stunda og samfélagið allt, með áherslu á mótspyrnu gegn menningaráherslum sem fegra vændi og draga úr alvarleika þess. Einnig er mikilvægt að rannsaka hvað leiðir fólk út í vændi og hvernig er best að koma til móts við þau sem feta þessa braut. Í íslenskum lögum sem tóku gildi í tíð þessarar ríkisstjórnar kveður á um að kynferðismök án samþykkis séu nauðgun. Samþykki getur í eðli sínu ekki byggt á öðru en á fúsum og frjálsum vilja og það er því ekki hægt að greiða með fé eða nokkru öðru fyrir samþykki. Samkvæmt þessari skilgreiningu er vændi ein birtingarmynd af kynferðisofbeldi. Því þarf að útrýma, bæði á Íslandi og annarsstaðar,“ segir hún að lokum.