Fréttablaðið skýrir frá þessu. „Við viljum að Ísland sýni ábyrgð gagnvart afgönsku þjóðinni, nú þegar flóttamannastraumurinn frá Kabúl er brostinn á,“ er haft eftir Ásmundi sem sagðist vænta tillagna frá flóttamannanefndinni um hversu hratt er hægt að bregðast við ákalli Afgana um landvist. „Ég væri ekki að biðja um þessi ráð ef við ætluðum ekkert að aðhafast,“ sagði hann.
Ásmundur sagði stöðuna hræðilega, valdatakan bitni skelfilega á konum.
Stríð hefur geisað í Afganistan í um 40 ár og eru innviðir landsins veikburða. Um 30 milljónir búa í landinu og hefur helmingur þeirra þurft að reiða sig á mannúðaraðstoð áratugum saman. Þriðjungur landsmanna hefur búið við hungurmörk um langa hríð.
Um 400.000 manns hafa flúið land árlega síðustu ár.