Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, segir að hópur sem staðsetur sig á hægri vængnum hafi eignað sér hugtakið frelsi. Sami hópur reyni ítrekað að skilgreina hvað frelsi er og hvað ógni því. Hann ræðir þetta í leiðara Kjarnans í morgun.
„Frelsið, samkvæmt henni, virðist til að mynda ekki ná yfir frelsi fólks til að skaða sig sjálft, til dæmis með fíkniefnaneyslu. Árum saman hefur verið unnið að því á Alþingi að afglæpavæða neysluskammta af fíkniefnum. Tilgangurinn er að hætta að refsa veiku fólki og taka stórt skref í átt að því að skilgreina fíknisjúkdóma sem heilbrigðis- og félagslegt mál, ekki glæp. Þetta mál fékkst ekki afgreitt út úr nefnd í lok þings og ýmsir sjálfskipaðir boðberar frelsis innan stjórnmálastéttarinnar lögðust gegn því,“ segir Þórður en málið hefur ítrekað verið fellt niður innan Alþingis.
Þá segir hann að frelsi þessa hóps virðist ekki ná til kvenna sem vilja ráða yfir eigin líkama.
„Þegar lögum um þungunarrof var breytt með þeim hætti að slíkt yrði heimilt fram á 22. viku meðgöngu, óháð því hvaða ástæður liggja að baki, þá kusu átta þingmenn Sjálfstæðisflokks gegn frumvarpinu. Á meðal þeirra var formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, sem sagði í ræðu að kvenfrelsi gæti „ekki trompað hvert einasta annað álitamál sem kemur upp í þessum efnum“,“ segir Þórður og gagnrýnir Bjarna.
Hann segir að flokkur Bjarna hafi undanfarna mánuði stært sig af því að halda lýðræðisveislu vegna mikillar þátttöku í prófkjörum hans. Hann segir þó að veislan virðist einungis ætluð flokksmönnum í innanflokksstarfi.
Þá hefur verið mikið rætt um ójafnvægi innan kosningakerfisins en hvert atkvæði hefur meira vægi utan á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur sér vel fyrir flokka á borð við Framsóknarflokkinn og Sjálfstæðisflokkinn en þeir vilja alls ekki leiðrétta kerfið jafnvel þó að þeir hafi viðurkennt að kerfið sé ekki sanngjarnt.
Fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 2018 lá fyrir Alþingi frumvarp um að færa kosningaaldur niður í 16 ár. Ef frumvarpið yrði að lögum hefðu um níu þúsund nýir kjósendur fengið rétt til að taka þátt í þeim kosningum. Öruggur meirihluti var fyrir málinu á þingi. Málþóf þingmanna þriggja flokka sem mældust með með minni stuðning hjá ungu fólki en almennt, meðal annars úr hinum frelsiselskandi Sjálfstæðisflokki, kom í veg fyrir samþykkt frumvarpsins, og hafði þar með frelsið til að taka þátt í mótun samfélagsins af níu þúsund íbúum,“ segir Þórður.
Hann bendir einnig á að fjölmiðlafrelsi hafi hrunið á meðan Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið við völd. Frá árinu 2013 hefur Ísland farið úr 8. sæti niður í 16. sæti lista samtakanna Blaðamenn án landamæra um fjölmiðlafrelsi. Hinar Norðurlandaþjóðirnar fjórar raða sér í efstu fjögur sætin.