Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir í viðtali við sjónvarpsstöðina Hringbraut að í dag standi yfir samningaviðræður við einkaaðila um að manna gjörgæsludeildir heilbrigðiskerfisins í Covid-faraldrinum. Fréttablaðið greinir frá.
„Þetta eru aðilar sem eru að reka heilbrigðisþjónustu úti í bæ en hafa tekið því vel þegar við höfum leitað eftir því að þau geti ljáð okkur lið, eða lagt okkur lið öllu heldur. Bæði læknar og hjúkrunarfræðingar og fjölbreyttara starfsfólk, sem er að hjálpa okkur að manna þessar deildir sem að mæðir mest á,“ segir Svandís.
Aðspurð hvort þetta sé ekki á skjön við hennar pólitík sem hefur ávallt verið andsnúin einkavæðingu heilbrigðisþjónustu, segir Svandís að það sé í takt við hennar pólitík að leysa málin.
Nánar verður rætt við Svandísi á Fréttavaktinni sem hefst á Hringbraut kl. 18:30.