Jóhann Páll Jóhannsson, frambjóðandi Samfylkingarinnar og fyrrum blaðamaður, tók saman tölur frá Hagstofunni varðandi sjúkrarými og fjölgun íbúa á Íslandi. Niðurstaðan var sú að sjúkrarýmum hefur fækkað verulega seinustu ár.
„Fjölgun hjúkrunarrýma hefur ekki haldið í við mannfjöldaþróun og breytta aldurssamsetningu; afleiðingin er hinn rándýri útskriftarvandi Landspítala, þar sem fjöldi eldra fólks með gilt færni- og heilsumat þarf að dvelja langdvölum á hátæknisjúkrahúsi af því það vantar pláss á hjúkrunarheimili,“ skrifar Jóhann í færslu á Facebook-síðu sinni og bætir við að þetta sé bæði vont fyrir fólkið og vond nýting á fjármagni.
Hann bendir á að fjöldi gjörgæslurýma á Íslandi miðað við höfðatölu er með því lægsta sem þekkist á Vesturlöndum. Aðeins 10 gjörgæslurými eru mönnuð þessa dagana en á nýlega voru 13 sjúklingar sem þurftu á rýmunum að halda, þar af átta með Covid-19.
„Þetta er staðan í einu ríkasta samfélagi heims – en skilaboð ráðherra eru þau að heilbrigðisstarfsfólkið verði bara að hætta að kvarta og gjöra svo vel að hlaupa hraðar. Er nema von að það reynist erfitt að manna heilbrigðisþjónustuna og laða sérfræðimenntað fólk til starfa? Og er nema von, í ljósi fækkunar sjúkrahúsrýma, að heilbrigðisstarfsfólk þekki varla annað en spretthlaup eftir spretthlaup?“ spyr Jóhann.
Hann segir að næsta ríkisstjórn verði að setja uppbyggingu sterkara heilbrigðiskerfis í forgang.
„Ráðast skipulega að rótum útskriftarvandans með markvissri fjölgun hjúkrunarrýma og fjölbreyttari búsetuúrræða og vinna gegn mönnunarvandanum með samhentum aðgerðum, til langs tíma og þvert á ráðuneyti, sem miða að því að gera eftirsóknarvert fyrir heilbrigðisstarfsfólk að vinna á Íslandi,“ segir Jóhann.
Hann segir þetta ekki vera einfalt verkefni og að þetta kosti peninga en að þetta sé hægt. Það þurfi að breyta forgangsröðun við stjórn landsins.