Aðalfundi Pírata fyrir alþingiskosningarnar í haust, sem fram átti að fara dagana 14. til 15. ágúst, hefur verið frestað um eina viku. Aðalfundurinn verður því haldinn helgina 21. til 22. ágúst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum.
Ástæðan fyrir frestuninni er kórónuveirusmit starfsmanns Vogs á Fellsströnd, þar sem aðalfundurinn fer fram. Hluti starfsfólks var settur í sóttkví eins og reglur kveða á um og er því ekki hægt að halda stærri viðburði á hótelinu vegna manneklu. Af þeim sökum getur aðalfundur Pírata ekki farið þar fram um næstu helgi eins og vonir stóðu til.
Þrátt fyrir þetta mun aðalfundur Pírata fara fram á Fellsströnd, þó hann verði viku síðar.
Píratar munu í því ljósi iðka ítrustu sóttvarnir á aðalfundinum, í samræmi við verklagsreglur flokksins í faraldrinum sem unnar voru í samráði við almannavarnir. Þannig er fjöldi fundarfólks takmarkaður við 100, en gildandi sóttvarnatakmarkanir kveða á um 200 manna hámark. Þá verður jafnframt stuðst við aðrar hefðbundnar ráðstafanir; s.s. spritt, fjarlægðarmörk, grímur þar sem ekki er hægt að virða fjarlægðarmörk o.s.frv.
Þar að auki verður öllum fundinum, sem hefst kl. 10 á laugardag og lýkur kl. 16:20 á sunnudag, streymt á netinu í gegnum fjarfundabúnað flokksins. Píratar sem eiga ekki heimangengt munu því geta tekið þátt í dagskrá fundarins.
Frestur til að skrá sig til þátttöku á fundinum framlengist um viku, sem og framboðsfrestur í nefndir, stjórnir og ráð sem kosið er um á aðalfundi.