GAJA er ný gas- og jarðvegsstöð Sorpu sem tekin var í notkun fyrir ári síðan. Samkvæmt heimildum Stundarinnar hefur kostnaður við stöðina farið gjörsamlega úr böndunum, kostnaður var áætlaður um 3,7 milljarðar króna árið 2016 en stöðin mun á endanum kosta 6,1 milljarð króna.
Samkvæmt rannsókn Stundarinnar verður plastmagn í moltunni sem til stendur að framleiða í stöðinni langt yfir viðurkenndum kröfum og myndi að óbreyttu hafa í för með sér að Sorpa myndi dreifa 200 tonnum af plasti í íslenska náttúru árlega. Stundin sakar Sorpu um leyndarhyggju en framkvæmdastjóri Sorpu, Jón Viggó Gunnarsson, hefur neitað Stundinni um viðtal vegna málsins mánuðum saman. Ekki hefur heldur tekist að fá viðtal við stjórnarformann Sorpu, Líf Magneudóttur, borgarfulltrúa VG.
Í grein Stundarinnar segir:
„Ítarleg rannsókn Stundarinnar á starfsemi Sorpu sýnir leyndarhyggju innan fyrirtækisins. Ítrekuðum viðtalsbeiðnum Stundarinnar um viðtal við Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sorpu, hefur verið neitað svo mánuðum skiptir. Þá var beiðnum Stundarinnar um viðtal við Líf Magneudóttur, stjórnarformanns Sorpu, einfaldlega ekki svarað. Þegar Stundin óskaði eftir viðtali við hreinlega einhvern starfsmann innan Sorpu vegna GAJA, var beiðninni hafnað og óskað eftir að allar spurningar yrðu sendar skriflega. Þegar þær spurningar voru sendar komu svör seint, svo seint að kæra þurfti töfina til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Samkvæmt heimildum Stundarinnar var helstu stjórnendum og starfsmönnum Sorpu gefin fyrirmæli um að ræða alls ekki við blaðamann blaðsins.“
Í greininni er staðhæft að framkvæmdakostnaður vegna GAJA hafi haft mjög slæm áhrif á fjárhagsstöðu Sorpu. Eigendur Sorpu, sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, hafa þurft að ábyrgjast aukalánveitingar vegna fyrirtækisins fyrir um milljarð króna:
„Þegar rýnt er í ársreikning fyrir árið 2019 sést hversu skuggaleg staðan er orðin. Skuldsetningarhlutfall Sorpu var komið upp í 67,5% árið 2019 en var eingöngu 5,36% árið á undan. Þá fór arðsemi eigin fjár niður í 2,6% árið 2019 en var 27,6% árið 2015. Þá hrapaði hagnaður félagsins úr 542 milljónum króna árið 2018 niður í 96 milljónir árið 2019,“ segir enn fremur í grein Stundarinnar.
Eins og fyrr segir er moltan frá GAJA plastmenguð, samkvæmt rannsóknum Stundarinnar, en það er mjög á skjön við yfirlýsingar forsvarsmanna Sorpu um stöðina. Hafa þeir haldið því fram að stöðin gæti framleitt hágæða moltu úr skítugum bleium og öðrum heimilisúrgangi. Fyrrverandi framkvæmdastjóri Sorpu, Björn H. Halldórsson, sem var rekinn í kjölfar svartrar skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar um starfshætti Sorpu, fullyrti að almenningur myndi dreifa moltunni í garða sína alls staðar á höfuðborgarsvæðinu. Myndi þetta gera flokkun heimilissorps í raun óþarfa á þessu svæði. Í greininni er þessum áformum lýst sem afar óraunhæfum og fyrrverandi starfsmaður Sorpu líkir þeim við töfrabrögð.