fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Eyjan

Ævintýralegar ásakanir Íslendinga sem mótmæla bólusetningum – Segja að Kári og þríeykið hafi fengið lyfleysu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 6. ágúst 2021 09:47

Frá mótmælum gegn bólusetningum barna í gær. Mynd: Eyþór.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Séríslenskar og vægast sagt sérkennilegar sögur um bólusetningar gegn Covid-19 hafa verið á sveimi, jafnvel á opinberum vettvangi. Um þetta fjallar Kolbrún Bergþórsdóttir í leiðara Fréttablaðsins í dag. Kolbrún segir að afar varhugavert sé að tala niður bólusetningar því það sé vatn á myllu andstæðinga þeirra:

„Sóttvarnayfirvöld og stjórnmálamenn verða að gæta þess að tala ekki niður bólusetningar við Covid. Of oft hafa heyrst setningar eins og: „Við höfum orðið fyrir vonbrigðum með bólusetningarnar,“ og: „Bólusetningar hafa því miður ekki skilað því sem við bjuggumst við.“

Þessi orð eru eins og hunang á vörum andstæðinga bólusetninga sem margsmjatta á þeim. „Bólusetningar virka ekki, sjáið bara öll smitin,“ gelta afneitunarsinnarnir. Margir þeirra halda því síðan fram, rétt eins og það sé hver önnur staðreynd, að bóluefnin hafi valdið meiri skaða en Covid.“

Kolbrún segir að tröllasögur um bólusetningar sem eru á sveimi, meðal annars í símatíma útvarpsstöðvar (væntanlega á hún við Útvarp Sögu, en nefnir stöðina ekki á nafn) séu eins og úr hryllingssögu eftir Stephen King. Er því meðal annars haldið fram að þríeykið og Kári Stefánsson hafi fengið lyfleysu í stað bóluefnis þegar þau voru bólusett:

„Í símatíma útvarpsstöðvar hélt einn hlustandi því fram, og sagðist hafa eftir erlendum lækni, að innan sex ára yrðu allir þeir sem fengið hefðu bólsetningu látnir. Þetta hljómar eins og krassandi söguþráður í metsölubók eftir meistara hryllingsins, Stephen King, en í raunveruleikanum ganga svona fullyrðingar engan veginn upp. Hlustandinn á útvarpsstöðinni var samt sannfærður, en rétt er að taka fram að umsjónarmaður þáttarins tók ekki undir þessa skoðun hans. Annar hlustandi hélt því síðan fram að erlendis hefðu bólusettar ófrískar konur í stórum stíl hnigið örendar niður.

Sú sem þetta skrifar heyrði á dögunum konu fullyrða staðfastlega að í bólusetningu í Laugardalshöllinni hefði þríeykinu og Kára Stefánssyni verið gefin lyfleysa. Kenningin er sú að Kári og þríeykið geri sér fulla grein fyrir því að bóluefnin séu stórhættuleg og því ekki látið sér detta í hug að láta sprauta sig með þeim og hætta eigin lífi. Ekki fylgdi þessari sömu sögu af hverju þessar þjóðhetjur væru svo miskunnarlausar að þær væru reiðubúnar að teyma þjóð sína nánast út í opinn dauðann.

Og nú berast fréttir af nýjasta útspili andstæðinga bólusetninga, en þeir halda því fram að til standi að eitra fyrir börnum með því að bólusetja þau.“

Bólusetningar séu leið út úr Covid

Kolbrún segir að bólusetningar séu leið út úr Covid-19 og eftir að þjóðin hefur verið bólusett sé ekki rétt að einblína á smittölur heldur þurfi að skoða tölur um alvarleg veikindi og dauðsföll. Bólusetningar séu mikil blessun sem alls ekki megi tala niður.

Hún gagnrýnir ennfremur hræðsluáróður sem sé uppi um ástandið í faraldrinum:

„Bólusetningarnar eru mikil blessun því þótt bólusett fólk smitist þá fær það vægari einkenni en ella og afar litlar líkur eru á andláti. Þessari staðreynd eiga sóttvarnayfirvöld að halda á lofti. Hún er öflugt vopn  í baráttunni við hinn glórulausa en um leið hættulega áróður andstæðinga bólusetninga.

Svo væri einnig ráð að sóttvarnayfirvöld og einstaka stjórnmálamenn létu af þeim hræðsluáróðri sem verið er að demba yfir þjóðina þessa dagana. Það er ekki innistæða fyrir honum, þótt almenningur sé farinn að trúa öðru. Enn á ný sannast hversu auðvelt er að hræða fólk.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”

Jóhann Páll svarar Áslaugu Örnu – „Sjálfstæðisflokkurinn er að fara á taugum í vörn sinni fyrir hagsmuni ríkasta fólksins á Íslandi”
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón

Svarthöfði skrifar: Allir vondir við aumingja Jón
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Inga Sæland: Ekki kjörin til að bjarga heiminum – björgum Íslendingum fyrst

Inga Sæland: Ekki kjörin til að bjarga heiminum – björgum Íslendingum fyrst
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 3 um ESB/evru: Noregur vill inn – Tyrkir hafa hangið á húninum frá 1987!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 3 um ESB/evru: Noregur vill inn – Tyrkir hafa hangið á húninum frá 1987!