Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, rithöfundur og þjóðfræðingur, telur að ríkisstjórnin veigri sér nú við að taka ákvarðanir í heimsfaraldi COVID-19 vegna þess hversu stutt er í kosningar. Hvetur hún ríkisstjórnina til að hysja upp um sig, bretta upp ermar og bjarga því sem bjargað verður. Þetta kemur fram í pistli á Facebook-síðu hennar.
„Á upplýsingafundi dagsins er talað um að „samfélagið þurfi að toga niður“ smit-kúrvuna sem er nú í hæstu hæðum. Altso, ég veit ekki betur en það sé einmitt „samfélagið“ – almenningur – sem er að bjarga því sem bjargað verður eins og staðan er, á meðan stjórnvöld draga lappirnar.“
Nú séu Íslendingar farnir að nota aftur grímur og spritt, að mestu óumbeðnir, á meðan stjórnvöld veigri sér við ákvarðanatöku af ótta við að það muni kosta þau atkvæði.
„Það er almenningur sem gengur nú óbeðinn með grímur og sprittar sig sem aldrei fyrr – frestar ferðalögum, skírnarveislum og brúðkaupum enn eina ferðina. Stjórnvöld láta lítið fyrir sér fara og fáar leiðbeiningar er þaðan að hafa eins og mál standa. Sóttvarnarlæknir búinn að lýsa því yfir að hann muni ekki gera fleiri tillögur til heilbrigðisráðherra að sinni. Ég skil það þannig að hans tillögur hafi trúlega lengi legið fyrir án þess að farið væri eftir þeim á þann hátt sem hann hefði helst kosið.
En nú eru að koma kosningar, ráðherrarnir allir á leið í framboð, og þá veigra þeir sér við að taka ákvarðanir. Þetta er sagan endalausa. Þau flýttu sér um of að aflétta hömlum á landamærunum – vildu taka vinsælar ákvarðanir – en eru nú að fá það allt í andlitið aftur. Og ekki bara þau, heldur við öll. Afleiðingin er sú sem sjá má: Aldrei fleiri smitaðir, fólk nú þegar í lífshættu á sjúkrahúsi og Landspítalinn kannski aðeins „einu rútuslysi frá því að fara á hliðina“.“
Ólína veltir fyrir sér hvort ríkisstjórnin ætli ekki að taka sig saman í andlitinu og takast á við stöðuna.
„Hvernig væri nú að ríkisstjórnin hysjaði upp um sig, leggði frá sér kosningahaminn og bretti upp ermar til að bjarga því sem bjargað verður. Þeim tókst bærilega til á tímabili meðan skynsemin var yfirsterkari atkvæðaveiðum og ótta við öfl atvinnulífsins, einkum ferðaþjónustuna.“
Ólína hvetur ríkisstjórnina til að til dæmis herða hömlur á landamærum og koma upp skyndiprófunarstöðvum.
„Herðið nú hömlurnar á landamærunum. Setjið upp skyndiprófunar-stöðvar á víð og dreif eins og er orðið alsiða í borgum erlendis. Fólk getur þá tekið próf að morgni og nýtt það til að komast inn á veitinga- og samkomustaði í almennings-samgöngur og mannmargar verslanir þann daginn. Þetta samhliða sprittstöðvum og góðri sóttgát í verslunum og öðrum þjónusturýmum myndi vafalaust hjálpa mikið til.“