Ríkisstjórnarfundur verður haldinn í ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu í fyrramálið, föstudag. Ljóst er að kórónuveirufaraldurinn verður þar helsta umræðuefnið en ríkisstjórnin hefur til athugunar mismunandi leiðir í baráttunni við faraldurinn, sem sóttvarnalæknir hefur lagt á borðið.
Róbert Marshall, upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar, segist í stuttu spjalli við DV ekkert geta gefið út um það hvort tilkynnt verði um nýjar sóttvarnatakmarkanir á morgun. Ljóst sé hins vegar að þetta málefni verði í brennidepli á fundinum.
Ríkisráðsfundur var á Bessastöðum í dag en þar voru þessi mál ekki rædd. Um er að ræða reglulegan fund sem haldinn er eftir hvert þing þar sem staðfest eru lög og ákvarðanir sem Alþingi samþykkti á síðasta þingi.
Ríkisstjórnarfundurinn er kl. 9:30 í fyrramálið. Róbert segir ekki hægt að spá fyrir um hvað fundurinn stendur lengi en vanalega standi ríkisstjórnarfundir yfir í einn og hálfan til tvo tíma.
Sá möguleiki er klárlega fyrir hendi að tilkynnt verði um hertar sóttvarnatakmarkanir um hádegisbil á morgun. Það er að minnsta kosti ljóst að landsmenn bíða spenntir eftir yfirlýsingum ráðherra eftir fundinn.