Í leiðara Morgunblaðsins í dag er RÚV sakað um að breiða út hræðsluáróður um stöðu kórónuveirufaraldursins. Meðal annars er gagnrýnt hvernig því er slegið upp í fréttatímum að Ísland verði nú skilgreint sem rautt svæði með tilliti til smittíðni. Í leiðaranum segir:
„Rauði liturinn merkir það, að allt sé komið í stórkostleg óefni, þannig að allir þeir sem eru með á nótunum hljóti að forðast landið, morandi í veirum, eins og rauðan eldinn.
Og myndin sem kemur upp í huga margra minnir sjálfsagt mest á aðrar um sama efni frá Indlandi fyrir fáeinum vikum. Það var ljóta sagan og reyndar óhugnaður. Hvað er það sem gerir okkur þau örlög að mála eigin sjálfsmynd rauða út á við, þótt varla sé nokkur maður veikur hér í alvörunni vegna kórónuveiru? Hvaða endemis vitleysa er þetta? Sagt var á „RÚV“ að „tveir heimilismenn á Grund væru í einangrun í 10 daga,“ en þeir fyndu þó engin minnstu merki um lasleika, og skildu ekki alveg hvers vegna þeir væru lokaðir inni! Ætlar „RÚV“ að halda áfram að segja okkur frá því á hverjum degi, næstu árin, að þrír séu með hita á Eir, löngu eftir að veiran er farin?“
Mogginn segir að vegna útbreiddrar bólusetningar sé ástandið núna eins og í venjulegri flensu og spurt er hvers vegna flensan hafi ekki mætt í ár eins og undanfarin ár. Þá segir:
„Og þannig vill til að að aldrei nokkru sinni hafa jafn margir Íslendingar verið bólusettir fyrir flensu og nú hafa verið bólusettir fyrir kórónuveiru. Smitin, sem enn eru fyrsta frétt kvölds og morgna, eru nú sögð aðallega liggja í hópnum 20-30 ára. Það er talað lægra um það, að langfæstir þeirra finna fyrir því. Það var þó búið að margtyggja það í okkur öll að þessi hópur tæki veirunni létt og hristi hana af sér eins og hverja aðra slettu. Hefur það breyst? Af hverju er verið að draga þá þróun á langinn? Er ekki best að þessi hópur sem hefur svo mikla og hraða yfirferð afgreiði málið sem fyrst, en sé ekki hafður í einangrun lon og don? Þótt gælt sé við hræðsluáróðurinn er ekkert sem bendir til þess að sjúkrahúsin myndu fyllast þótt smithraðinn fengi að hafa sinn gang hjá þessum allra hraustasta hópi þjóðfélagsins og hinir þurfa þá ekki að hafa hættuna af því miklu lengur hangandi yfir sér. Þeir fáu sem eru veikir fyrir í þessum aldursflokki voru rækilega bólusettir.“
Þá segir að málflutningur yfirvalda undanfarið sé ekki í samræmi við það sem áður hefur verið haldið fram, varðandi hjarðónæmi. Flestir sem smitist í dag séu á aldrinum 20-30 ára og því hafi margoft verið lýst yfir að þessi aldurshópur veikist ekki illa af veirunni. Spurt er hvers vegna veiran megi þá ekki ganga yfir þennan hóp. Síðan eru yfirlýsingar um að stefni í neyðarástand á sjúkrahúsum með auknum smitum dregnar mjög í efa:
„Áður hafði verið margsagt að hætt hefði verið við að reyna að ná hjarðónæmi, sem líka hafði verið sagt að væri sennilega æskilegasta þróunin, því að sú leið væri vart fær nema að eldri og veikari hópar hefðu áður verið bólusettir, því annars kynni sjúkrahúskerfið að kollsteypast. Við keyptum þetta öll. Það eru engin merki um það, að það kerfi sé að kollsteypast. Þess vegna getum við leyft mikilvægustu hlutum þess starfshóps að taka sínar sex vikur í sumarfrí, og jafnvel tveggja vikna viðbótarrannsóknarleyfi, eins og ekkert sé í gangi, sem þýðir að aðeins verður hálfmannað á spítölum næstu þrjá mánuði og jafnvel rúmlega það! Ef enn væri neyðarástand eða slíkt hugsanlega yfirvofandi, þá myndum við ekki leyfa okkur slíkan lúxus! Þetta eru því góðar fréttir.“
Morgunblaðið spyr hvers vegna RÚV haldi áfram „þessum heimskulega hræðsluáróðri að þjóðinni“. Í lok pistilsins er ruglingur varðandi grímuskyldu gagnrýndur og skýrari upplýsinga krafist:
„Af hverju eru verslanir og bensínstöðvar að halda uppi grímuskyldu hér og hvar, en annars staðar ekki svo almenningur veit ekki sitt rjúkandi ráð. Þótt nú berist reglulega fréttir erlendis frá um að miðlungs grímur, svo ekki sé minnst á hinar lakari, séu langoftast hrein gervivörn á veirutímum. Þó höfum við engar upplýsingar fengið um það hvaða grímum sé óhætt að treysta út í æsar og hverjum ekki. Þeir sem raunverulega bera ábyrgð geta ekki lengur vikið sér undan henni.“