Kristín Erna Arnardóttir, meðlimur í stjórn Stjórnarskrárfélagsins, er ekki sátt með viðtal sem Morgunblaðið tók við Kristrúnu Heimisdóttur, lögfræðing sem er í stjórn sjávarútveigsfyrirtækisins Brims. Þetta kemur fram í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun.
Kristínu finnst sérstakt að ekki sé minnst á stöðu Kristrúnar hjá Brimi í frétt mbl.is um málið, og vill meina að hún dreifi áróðri, og að hennar skoðanir geti seint talist fræðilegar vegna stöðu sinnar.
„Mbl.is dreifir nú eins og vindurinn klippu úr viðtali Andrésar Magnússonar, blaðamanns Morgunblaðsins, við Kristrúnu Heimisdóttur. Þar heldur hún áfram áróðri sínum gegn nýju stjórnarskránni í takt við ritgerð hennar sem birtist í nýjasta tölublaði Tímarits lögfræðinga. Þar láðist henni að geta þess að hún er í stjórn Brims. Bara sú vísvitandi vanræksla breytir skoðun hennar úr fræðilegri umfjöllun í ósvífinn áróður, svo hennar eigin orð séu notuð. Það að stjórnarmaður í einni af stærstu útgerðunum sé að tjá sig á þennan hátt um eitt stærsta hagsmunamál almennings undir merkjum fræða og hlutleysis gerir málflutning hennar ótrúverðugan.“
Kristín fjallar þá um nýju stjórnarskrána, sem hún bendir á að byggi fyrst og fremst á núverandi stjórnarskrá. Hún segir að breytingarnar á henni eigi að sjá til þess að færa hana inn í nútímann.
„Það er blekking að halda því fram að til hafi staðið að gerbreyta stjórnarskránni í einu vetfangi,“ segir Kristrún. Það er alveg rétt hjá henni enda gengur hræðsluáróður málpípu útgerðarinnar út á tal um kollsteypu stjórnskipunarinnar, sem enginn hefur lagt til. Það vita allir sem vilja vita að meira en 70% af nýju stjórnarskránni er beint upp úr þeirri gömlu, enda viljum við halda því stjórnkerfi sem við höfum fyrir utan nokkrar lagfæringar sem færa hana nær nútímanum, eins og jafnt vægi atkvæða og möguleikann á persónukjöri. Það má kannski segja að nýja stjórnarskráin sé uppfærsla á þeirri gömlu. Nýja stjórnarskráin er líka nær þeirri stjórnskipan sem við búum við í dag því margt í núverandi stjórnskipun er ekki byggt á orðalagi stjórnarskrárinnar, og rímar raunar illa við hana, heldur er byggt á hefðum og venjum.“
Kristín segir að alltaf þegar umræða um nýju stjórnarskránna komi upp fari ákveðnir aðilar að búa til efasemdir og tala hana niður. Hún segir að það gerist til að verja sérhagsmuni frekar en almannahagsmuni
„Í umfjöllun Kristrúnar um stjórnarskrána er ekki eitt orð um pólitísku hagsmunaslagsmálin sem voru á þingi á árunum 2009-2013 og eru enn. Á þessum tíma var stjórnarandstaðan vægast sagt önnum kafin við að stoppa málið. Alveg eins og núna þegar umræðan um nýju stjórnarskrána er að vakna þá eru allar klær settar út til að villa um fyrir almenningi, sá efasemdafræjum og tala niður það frábæra lýðræðislega ferli sem nýja stjórnarskráin sprettur af.
Allt þetta til að vernda sérhagsmunina gegn almannahagsmunum. Þetta snýst ekki síst um auðlindir þjóðarinnar. Þeir sem setið hafa við kjötkatlana allan lýðveldistímann munu ekki átakalaust gefa eftir sætin sín.“
Kristín endar svo pistill sinn á þessum orðum: „Það er erfitt að sjá hvernig stjórnarmaður í Brimi getur verið faglegur og hlutlaus í þessari umræðu.“