Ole Anton Bieltvedt, alþjóðlegur kaupsýslumaður og stjórnmálarýnir, segir að Evrópusambandið snúist um miklu meira en sameiginlegan markað og gjaldmiðilinn evruna. ESB komi við sögu í hversdagslegu lífi okkar á hverjum degi og færi okkur gæði sem margir haldi að komi af sjálfu sér.
Þetta kemur fram í aðsendri grein frá Ole í Morgunblaðinu.
Ole segir að ESB tryggi okkur vörugæði og öryggi með CE-staðlinum:
„Á hverjum einasta degi, og oft á dag, erum við með hluti – alls kyns varning; matvöru, fatnað, heimilisbúnað, áhöld og verkfæri, líka öll rafmagnstæki, vélar, farartæki og bílinn okkar – í höndunum, þar sem einmitt ESB hefur tryggt okkur mestu möguleg þægindi, umhverfisvænar lausnir og umfram allt öryggi og gæði í notkun.
Allt sem við erum með í höndunum og notum, sem er CE-merkt, hefur þurft að uppfylla stífar kröfur ESB og prófanir um vænar lausnir fyrir neytendur og aðra notendur, lágmarks orkunotkun og minnsta mögulega umhverfisspillingu og, eins og áður segir, hámarks öryggi og endingu.
Þessi starfsþáttur ESB er einn af lykilþáttum sambandsins hvað varðar okkar daglega líf; trygging hagsmuna og velfarnaðar þegna þess.“
Ole minnir á önnur gæði sem koma frá EBS, til dæmis evrópska sjúkratryggingakortið sem veitir Íslendingum aðgang að sjúkraþjónustu og sjúkratryggingu í 28 evrópskum ríkjum. Neytendavernd ESB stuðli að því að símakostnaður símnotenda í ESB og á EES-svæðinu lækki. Þá beri að nefna óskorað ferðafrelsi, námsfrelsi og starfsfrelsi. Síðan segir:
„Það sama gildir þegar kemur að baráttunni gegn verðsamráði, einokun og markaðsmisnotkun stórfyrirtækja og alþjóðlegra auðhringa. Þar vakir ESB yfir hagsmunum okkar og velferð og bregst hart við þegar neytendur eða almenningur eru beittir órétti eða yfirgangi.“
Þá segir Ole að við getum þakkað ESB að flestir eru hér bólusettir gegn Covid-19 en þátttaka í sameiginlegri bóluefnaáætlun sambandsins hafi fært okkur aðgang að bóluefnum.
Ole víkur að mörgu fleiru sem hann telur vera dæmi um þann ávinning sem ESB færir okkur og telur hann að margir geri sér ekki grein fyrir þessu. Hann segir í lok pistilsins:
„Það er því sannarlega mikilvæg og margvísleg þjónusta sem ESB veitir bandalagsþjóðum sínum, svo og okkur tengdum EFTA-þjóðum, fyrir utan alls kyns viðskipta- og efnahagsmál, en á því sviði tryggir sambandið okkur öllum frjálsan og jafnan markaðsaðgang og athafnafrelsi.
Stundum hefur maður það á tilfinningunni að sumir hér haldi að þetta hafi allt komið af sjálfu sér, eða sé okkur sjálfum allt að þakka, en það er fjarri lagi.“