Niðurstöður könnunarinnar sýna að 29,5% landsmanna eru frekar ánægð með fjölgun erlendra ferðamanna og 19,5% eru mjög ánægð. Hvað varðar þá óánægðu þá eru 15,5% frekar óánægðir og 9,4% mjög óánægðir.
Þau viðhorf sem spurt var um dreifast nokkuð jafnt á þjóðfélagshópa en karlar eru þó mun ánægðari með fjölgun ferðamanna en konurnar. Í 55% tilvika lýstu þeir yfir ánægju með fjölgun ferðamanna en konurnar í 42% tilvika. Konur eru líklegri til að vera óánægðar með fjölgun erlendra ferðamanna en 30% þeirra eru óánægðar með þróunina en hjá körlum er hlutfallið 20%.
Íbúar landsbyggðarinnar eru líklegri til að vera óánægðir en íbúar á höfuðborgarsvæðinu.
Ef litið er til viðhorfa út frá hvaða stjórnmálaflokk fólk styður þá eru kjósendur Viðreisnar ánægðastir með fjölgun erlendra ferðamanna eða 70%. 63% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eru ánægðir og rúmlega 50% kjósenda Samfylkingarinnar en 16% eru óánægð með hana og þriðjungur er hvorki ánægður né óánægður.
Nánar er hægt að lesa um könnunina í Fréttablaðinu í dag.