Þetta eru niðurstöður nýrrar skoðanakönnunar sem Prósent gerði fyrir Fréttablaðið. Fram kemur að 49% kjósenda VG ætli að kjósa flokkinn aftur í haust. Rúmlega 16% þeirra ætla að kjósa Samfylkinguna, 12,4% Sósíalista og rúmlega 11% Pírata.
Kjósendur Sjálfstæðisflokksins virðast vera trúir sínum flokki en rúmlega 80% þeirra sem kusu hann síðast ætla að kjósa hann aftur. 76% kjósenda Framsóknarflokksins ætla að kjósa flokkinn aftur en kjósendur Miðflokksins eru margir hverjir á leið heim í Framsóknarflokkinn því aðeins 58% þeirra ætla að kjósa Miðflokkinn aftur en 21% ætla að kjósa Framsóknarflokkinn.
Hjá kjósendum Samfylkingarinnar ætla 59% kjósenda að kjósa flokkinn aftur nú en 13% ætla að styðja Pírata og 10% Viðreisn.
Hvað varðar fylgi flokkanna þá mælist Sjálfstæðisflokkurinn með 23,6% fylgi. Fylgi Vinstri grænna mælist tæplega 12%. Fylgi Viðreisnar 10,1%. Fylgi Framsóknarflokksins mælist 10,6% og fylgi Pírata mælist 13,3%. Fylgi Samfylkingarinnar mælist 12,6% og Miðflokksins 5,6%. Fylgi Sósíalista mælist 6,1% en það myndi duga til að tryggja flokknum þingsæti.
Úrtakið í könnuninni var 2.600 manns, 18 ára og eldri, sem fengu könnun Prósents senda. Svarhlutfallið var 52% og voru svörin vegin eftir kyni, aldri og búsetu.