Ráðherrar sem flugu frá Reykjavík til Egilsstaða vegna ríkistjórnarfundarins þar sem ákvörðun verður tekin um nýjar sóttvarnatakmarkanir leigðu einkaþotu sem flaug þeim frá Reykjavíkurflugvelli í dag og austur á Egilsstaði. Flugið kostaði 800 þúsund krónur.
Helga Vala Helgardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir þessa ráðstöfun. Henni þykir sérkennilegt að ráðherrar hafi ekki fengið fundarboðið nógu snemma til að þeir kæmu sér á staðinn með öðrum hætti. Helga Vala birti eftirfarandi Facebook-pistil um málið:
„Það er ekki eitt, það er of margt alveg ruglað við atburðarrás síðustu daga.
Það var vitað í fyrradag að það kæmu nýjar tillögur vegna fjölgunar smita. Þjóðin hefur fengið að bíða í tvo daga eftir því hvað gerist næst og hvaða takmarkanir verða settar á frelsi hennar.
Í tvo daga hefur ríkisstjórnin verið meðvituð um þetta en virðist koma af fjöllum varðandi fundarstað. Ekki virðist hafa komið til greina að halda fjarfund, eins og er orðið landlægt í heimsfaraldri annars vegar í þágu smitvarna og hins vegar til að koma fólki sem er á víð og dreif á einn og sama fundinn.
Nei, þau velja að vera á Egilsstöðum, borga 800 þúsund fyrir flugvél undir þrjá ráðherra, sem virðast ekki hafa fengið fundarboðið nægilega snemma til að geta komið sér á staðinn eins og hinir? Hver er að skipuleggja þetta eiginlega? Af hverju er fundað kl 16 á föstudegi? Hvað eiga skipuleggjendur hátíða og fjölskyldur í landinu að gera við upplýsingar undir kvöld á föstudegi? Er þetta gamla trixið að koma með vondar fréttir í lok viku til að þær týnist í helginni? Er ekki viss um að það trix náist núna og mér finnst þessi framkoma ríkisstjórnar eiginlega fyrir neðan allar hellur.“