Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ritar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann rifjar upp gamla brandara um þau ríki sem voru undir stjórn sósíalista eða kommúnista. Hann segir megnið af sögunum koma frá þeim löndum þar sem þessar stefnur voru við lýði.
„Sögurnar voru og eru leið almennings til að komast stutta stund undan oki ófrelsis, skorts, stöðugs ótta og napurleika hversdagsins. Með þeim á fólk örlítið stefnumót við frelsi í þjóðfélögum þar sem málfrelsi er fótum troðið og Gúlag bíður þeirra sem berjast gegn valdhöfunum,“ segir Óli en brandararnir eru ádeila á stjórnarfarið.
Hann segir að fyrir fólk sem býr við „ógnarstjórn sósíalista“ séu brandarar og háð mikilvæg samskiptatæki sem mynda farveg til að tjá tilfinningar sínar gagnvart stjórnarfarinu. Óli byrjar á að taka Rússland og Sovétríkin fyrir í brandahorninu.
„Þannig birtist Stalín ljóslifandi í draumi Pútíns. „Ég get gefið þér tvö ráð,“ segir Stalín. „Í fyrsta lagi skaltu koma öllum andstæðingum þínum fyrir kattarnef og í öðru lagi mála Kreml blátt.“ „Af hverju blátt?“ spyr Pútín hissa. „Ég vissi það. Þú hefur ekkert við fyrra ráðið að athuga,“ segir Stalín.“
„Hver er munurinn á Indlandi og Sovétríkjunum? Á Indlandi sveltur einn maður fyrir þjóðina. Í Sovétríkjunum sveltur þjóðin fyrir einn mann. (Gandhi fór í hungurverkfall árið 1932 til að berjast fyrir sjálfstæði Indlands, en á sama tíma herjaði hungursneyð í Sovétríkjum Stalíns sem talið er að hafi kostnað 6-8 milljónir manna lífið).“
„Maður kemur inn í búð í Moskvu og spyr hvort ekki sé til nautakjöt. Afgreiðslumaðurinn hristir hausinn. „Nei, hér eigum við engan fisk. Búðin sem á ekkert kjöt er hins vegar hér beint á móti.““
„„Ég vil leggja inn pöntun fyrir nýjum bíl,“ segir vongóður kaupandi í Moskvu. „Hvað þarf ég að bíða lengi?“ „Tíu ár,“ segir sölumaðurinn og bætir við brosandi, „upp á dag“. „Er það fyrir eða eftir hádegi?“ spyr kaupandinn. „Hvaða máli skiptir það,“ spyr sölumaðurinn. „Jú, ég á von á píparanum fyrir hádegi.““
Sögurnar koma ekki einungis frá löndum þar sem sósíalisminn og kommúnisminn er við lýði en Bandaríkjamenn hafa víst líka skopskyn og gátu samið nokkra brandara til að létta fólki lundina.
„Sósíalismi: Þú átt tvær kýr. Ríkið tekur aðra þeirra og gefur nágranna þínum.
Kommúnismi: Þú átt tvær kýr. Þú gefur báðar til ríkisins sem lætur þig fá dálítið af mjólk í staðinn.
Fasismi: Þú átt tvær kýr. Þú gefur báðar til ríkisins sem selur þér síðan mjólk.
Kapítalismi: Þú átt tvær kýr. Þú selur aðra en kaupir naut.
Þjóðernissósíalismi (nasismi): Þú átt tvær kýr. Ríkið tekur báðar og leiðir þig fyrir aftökusveit.“
„Kapítalisti, kommúnisti og sósíalisti ákveða að hittast á kaffihúsi til að fara yfir þjóðmálin. Þeir tveir fyrstnefndu mæta á réttum tíma en sósíalistinn kemur klukkutíma of seint. „Fyrirgefið mér félagar, hversu seint ég mæti,“ segir sósíalistinn móður. „Ég þurfi að bíða í biðröð eftir pylsum.“ „Hvað er biðröð?“ spyr kapítalistinn undrandi. „Hvað er pylsa?“ spyr kommúnistinn.“
„Skóladrengur skrifaði eftirfarandi í vikulegri ritgerð: „Kötturinn minn eignaðist sjö kettlinga. Þeir eru allir kommúnistar.“ Viku síðar skrifaði sá stutti í nýrri ritgerð: „Allir kettlingarnir eru orðnir kapítalistar.“ Þegar kennarinn las þessa staðhæfingu kallaði hann á drenginn og vildi fá að vita hvers vegna allt hefði breyst svo snögglega: „Í síðustu viku sagðir þú að allir kettlingarnir væru kommúnistar, en í þessari viku eru þeir allt í einu orðnir kapítalistar?“ Drengurinn kinkaði kolli: „Það er rétt. Þeir opnuðu augun í þessari viku.““
Óli víkur sér næst að ríkjunum í Suður- og Norður-Ameríku, þá sérstaklega Kúbu og Venesúela.
„Englendingur og Frakki eru á listasafni og standa fyrir framan málverk af Adam og Evu með epli í aldingarðinum. Sá enski hefur orð á því að Adam deili eplinu með Evu líkt og sé háttur enskra. Frakkinn bendir á hversu óþvinguð þau eru í nekt sinni líkt og þau séu frönsk. Flóttamaður frá Venesúela heyrir tal félaganna og segir: „Fyrirgefið að ég skuli trufla ykkur, caballeros, en Adam og Eva eru greinilega bæði frá mínu ástkæra föðurlandi. Þau eru án klæða, hafa lítið sem ekkert að borða og þeim er talin trú um að þau séu í Paradís.““
„Leiðtogi annars draumaríkis vestrænna sósíalista, Fídel Kastró, fór beint að Gullna hliðinu eftir dauðann og smeygði sér inn. Lykla-Pétur var hins vegar á vaktinni og henti honum út. Kastró fór þá til helvítis þar sem skrattinn tók honum opnum örmum. Þegar kommúnistaleiðtoginn hafði orð á því að hann hefði gleymt farangrinum í himnaríki sagðist skrattinn redda því. Tveir púkar myndu ná í farangurinn. Púkarnir leggja strax af stað en þegar þeir koma að Gullna hliðinu er það harðlæst. Þeir ákveða því að klifra yfir hliðið. Tveir englar horfa á púkana komast yfir hliðið og annar þeirra segir: „Ja hérna, Kastró er ekki búinn að vera fimm mínútur í helvíti og við erum þegar byrjaðir að fá flóttamenn.““